föstudagur, febrúar 22, 2008

Setning kvöldsins...

...í Bandinu hans Bubba:

UB: "Nú eru fjórir áhorfendur... öh... keppendur eftir..."

Okkur hjónum fannst þátturinn skemmtilegur. Margir onelinerar (jájá, það er bara ekki til gott orð yfir þetta fyrirbæri á íslensku, allavega kann ég það ekki) hjá Bjössa. Dómnefndin góð, með gestadómara, yfirdómara og öllu. Hæfilega kæruleysislegt og mér finnst það ekkert til vansa að muna ekki hvað allir heita. Bara rokk í því. Gott líka að vera ekki að hanga neitt á þessu, heldur keyra kosninguna í gegn meðan auglýsingar og smá spjall er í loftinu.

Bandið er líka frábært og Unnur Birna kom á óvart. Það er meira en að segja það að vera svona í beinni, með tiltölulega litla sjónvarpsreynslu, pródúsentinn í eyranu og klukkuna tifandi.

Sem sagt; bara fínt sjónvarp.

Og já, Logi - þátturinn þinn er líka svaka fínn... ;o)

þriðjudagur, febrúar 19, 2008

Ég veit...

...að morgunstund gefur gull í mund, en mér finnst samt fullmikið af því góða að vakna klukkan fjögur.

Þá sjaldan ég vakna svona snemma, rifjast upp fyrir mér að þetta gerði ég alla virka daga í nokkur ár, meðan ég vann í Morgunútvarpinu á Rás 2. Það komst ótrúlega fljótt upp í vana, en ég man átakið meðan þessa fótaferðartími var að venjast. Við vorum tvö saman með útsendingu, og það okkar sem tók fyrri vaktina þurfti á tímabili að fara í loftið klukkan sex. Það þýddi ræs klukkan 4:40, rétt eins og maður væri að fara í flug alla daga.

Hér er eitt lag sem var ansi oft spilað á þessum tíma, og ég held ég hafi varla heyrt síðan við Linda Blöndal og Árni Sigurjóns vorum saman í þessu sumarið 2001, en þótti ljúft í eyra árla morguns.


Morgunútvarpstónlist er alveg kapítuli út af fyrir sig. Það er hreinlega ekki hægt að spila hvað sem er, því nývaknaðfólk virðist miklu frekar láta tónlist fara í taugarnar á sér en talað mál. Þess vegna var maður kominn með lagalista í kollinn, yfir skotheld lög síðustu fjögurra áratuga eða svo.

Þetta er annað, mun eldra, en líka gott morgunlag:


Og svo man ég að þetta var á hinum opinbera lagalista Rásarinnar þegar ég byrjaði:


Ef ég væri að vinna í morgunútvarpi núna, myndi þetta ábyggilega heyrast reglulega:


Jæja. Engin blöð komin ennþá. Best að fara að horfa á The Silent World of Nicholas Quinn, - Morsemynd úr pakka sem Logi keypti handa mér um daginn. Kannski svæfir yfirveguð glæpastarfsemi í Oxford mig.

sunnudagur, febrúar 17, 2008

Í dag...

...fór ég í ræktina. Það er í frásögur færandi.

Stundum hugsar maður gagnmerka hluti meðan maður endurtekur sömu æfinguna fimmtíu og seytján sinnum, og stundum ekki neitt. Í dag velti ég því aðallega fyrir mér, á hvað doktor Gunni væri að hlusta meðan hann hljóp, og hvers vegna hann hlypi afturábak. Í það minnsta sýndist mér hann gera það. Kannski hann hafi verið að hlusta á They're coming to take me away með Napolen XIV, B-hliðina. Þar er lagið nefnilega spilað afturábak, að minnsta kosti söngurinn.

Ég hlusta helst á eitthvert stórfenglegt píkupopp meðan ég æfi. Eins og þetta:


Það gerist augljóslega ekkert stórkostlegt í hausnum á manni á meðan maður hlustar.

Annars finnst mér rassadella allra þessara myndbandaleikstjóra vera rannsóknarefni.

laugardagur, febrúar 16, 2008

Snati er að myrða...

...klósettrúllu inni á baði. Í nokkra daga höfum við reglulega fundið klósettrúllur í henglum, annað hvort á morgnana þegar við komum upp, eða á daginn þegar við komum heim. Fram til þessa hefur Vala verið efst á lista grunaðra, en það er sem sagt Snati, sem skeytir skapi sínu á skeininum.

Annars er allt með kyrrum kjörum á heimilinu. Það er ekki eins og með mér búi árrisulasta fólk í heimi. Krakkarnir (bæði okkar og gistibörn), steinsofa, sem og Logi. Við Brynhildur rifum okkur upp fyrir átta, þótt ég hefði svo sem alveg þegið að sofa örlítið lengur. Þetta hefur verið frekar hektísk vika, með allskonar uppákomum, þannig að batteríin þurfa að komast í hleðslu.

Ég fékk þær fréttir í gærkvöldi að Guðrún, amma mín í Danmörku hefði dáið í fyrrakvöld. "Sov stille ind", eða fengið hægt andlát, eins og stóð í skilaboðunum frá Henriettu frænku minni. Hún var orðin níutíu og þriggja, þannig að það mátti svo sem búast við að þetta færi að styttast hjá henni. Jarðarförin verður á föstudaginn og mig langar að fara, en flækjustigið á því er í hærri kantinum.

- - -

Merkilegt hvað maður er eitthvað andlaus, á svona ágætis laugardagsmorgni. Að vísu dálítið þungbúið. Ég sé langa og bjarta sumardaga í hillingum, þar sem andinn blátt áfram hrynur yfir mann eigi síðar en klukkan sex á morgnana.

- - -

Hér er svo uppáhaldslagið þessa dagana:

 
eXTReMe Tracker
eXTReMe Tracker