þriðjudagur, júní 10, 2008

Kynlegt

EM-þáttur Þorsteins Joð er að hefjast í ríkissjónvarpinu.
S stendur við eldhúsbekkinn og slæst við sódastrímtækið.

L: Má ekki lengur hafa bara tvo karla að tala um fótbolta í sjónvarpinu?
S: Hvað meinarðu?
L: Æi, bara. Þorsteinn er að fara að tala við einhvern karl og einhverja konu núna.
S: Já, og? Er eitthvað að því...?
L (með gleði í röddinni): Nei, hey, þetta er Ásthildur Helgadóttir. Hún getur nú alveg talað um fótbolta. (Smá þögn) Öh. Neeei... þetta er ekki Ásthildur.
S: Nú?
L: Þetta er ekki einu sinni kona. Held ég.
S: Ó?
L: Nei. Er þetta ekki hann þarna fatahönnuður?

Jú, mikið rétt, Gunnar Hilmarsson í GK.

Það verður sagt um hvorugt okkar hjóna að við séum sérstaklega vís á kyn fólks.

laugardagur, júní 07, 2008

Að gefnu tilefni

Í dag hafa fjömargir verið sáttir með eitt og annað, jafnvel hver annan.

Nú spyr ég: Er maður ekki almennt ánægður með, en sáttur við hluti?

Nema maður sé auðvitað ferlega fúll og vansæll.

miðvikudagur, júní 04, 2008

Og svo kom júní

Já, merkilegt nokk.

* * *

Og með sumrinu kemur ný íslensk tónlist. Í spilaranum í bílnum er Ghosts from the past, nýi diskurinn hans Barða. Hann er bara frábær og ég er búin að hlusta svona áttaþúsund sinnum á lag númer tvö, sem mig minnir að heiti One more trip og var notað í Sterlingauglýsingu í vetur. Ghosts from the past tók við af disknum hennar Dísu, sem var líka svo góður að ég þurfti að tala um hann við fólk, sem vissi ekkert um hvað ég var að tala og hafði aldrei heyrt eitt einasta lag af honum. Mæli með lagi númer níu, mjög skemmtilegt.

Nýjasta uppáhaldið mitt er samt hljómsveitin Múgsefjun. Ég féll fyrst fyrir sándinu, sem minnti mig á Ástarsögu úr fjöllunum, með Hrauni, enda kom svo í ljós að eitthvað af plötunni þeirra er einmitt tekið upp inni í lýsistanki eða álíka gímaldi. Svo er það röddunin, stundum stríðir hljómar og skemmtilegir textar, fyrir utan melódíurnar sjálfar. Platan þeirra heitir Skiptar skoðanir og er vel þess virði að eignast, alveg eins og plötur Dísu og Barða.

Og viti menn - þeir verða í Íslandi í dag á föstudaginn. Snilld.

* * *

Fleira sem kemur með sumrinu: Ilmur af nýslegnu grasi. Ég ók um bæinn í dag með gluggana opna. Mmmm.

laugardagur, maí 17, 2008

Tímamót, rólegheit og spillingarstarfsemi

Í dag urðu tímamót á Rás 2. Magnús R. Einarsson, útvarps-, tónlistarmaður og snillingur spilaði sitt síðasta lag rétt fyrir hádegisfréttir og flyst einhvern tímann í sumar yfir á Rás 1. Ég veit að ég á eftir að sakna þess að heyra í Magga á morgnana og held að það sé mun meiri spurn eftir honum en framboð á Rás 1 mun anna. Mér skilst að hann eigi að vera með einn þátt í viku. Þeir þættir verða örugglega pródúseraðir í spað og allt, en samt... Einn klukkutími af Magga? Uss.

Við unnum fyrst saman þegar kristnitökuhátíðin var haldin á Þingvöllum sumarið 2000. Ég var á hlaupum um Þingvelli, með stórundarlegt útsendingartæki á bakinu, og Maggi sá um tal og takka í stúdíói 1 í Efstaleiti. Eftir það varð ekki aftur snúið, mér fannst Maggi einfaldlega frábær, og við enduðum á því að vinna saman í morgunútvarpinu á Rás 2, þangað til það var lagt niður til að rýma fyrir Morgunvaktinni á Rás 1, sem var svo fyrirferðarmikil að hún varð að leggja undir sig báðar rásir Ríkisútvarpsins. Ég fór yfir í Kastljósið, og svo þaðan yfir á Stöð 2, en Maggi var alltaf fastur punktur á Rásinni.

En ekki lengur. Ég bíð spennt eftir fyrsta þættinum á Gufunni.

* * *

Á Dalvík ríkja rólegheitin ein. Við komum hingað í nótt, keyrðum eftir vinnu í gærkvöldi hjá mér og höfum haft það náðugt í dag. Logi er reyndar akkúrat núna í lokahófi blakliða í húsinu bak við okkur (hann er ekkert spes í blaki, en þarna er bjór), en ég er að hugsa um að fara að halla mér. Tiltekt í garðinum framundan og svoleiðis.

* * *

Við keyrðum fram Svarfaðardal í kvöld, Brynhildur vildi endilega fara í bíltúr. Sáum kindur, lömb, kýr, hesta, og fáránlega marga máva lengst fram í dalnum. Ég velti því fyrir mér hvort þeir væru eitthvað ruglaðir, en þeir virtust vera þarna við ána í góðu yfirlæti. Logi hélt í það minnsta að það væri allt í lagi með þá. Sennilega væru þetta bara alvöru mávar, sem eltust við fisk og náttúrulegar fæðutegundir, en ætu ekki bara pylsubrauð, Dominospizzur og annað kemískt æti.

Við keyrðum nokkuð innblásin til baka yfir þessum rammíslensku og heilsusamlegu mávum. Ákváðum svo að stoppa rétt áður en við komum í bæinn til að leyfa Brynhildi að spjalla við nokkra hesta. Brynhildur gaf þeim pylsubrauðið sitt, sem þeir átu með bestu lyst. Svo ókum við heim, aðeins minna innblásin, eftir að hafa spillt svarfdælskum hrossum með kjörfæði reykvískra máva.

mánudagur, maí 05, 2008

60 tónleikar

Það er kannski ómerkilegt að skopast að sjónvarpsþýðingum, en þýðingarvilla gærkvöldsins er of góð til að sleppa henni.

Lögreglumaðurinn Randy í Monk er ekki beittasta tólið í skúrnum og í þættinum í gær, er hann í stöðugum vandræðum með mp3spilara. Hann er þó frekar ánægður með að vera svo hipp og kúl að eiga svona græju, og útlistar ágæti hennar, til dæmis að hún sé með 60 tónleikum. Já.

Þessi spilari endar í ruslinu, en Randy kaupir sér nýjan; 90 tónleika, eins og það var þýtt.

Þessi þýðing er næstum eins frábær og um manninn sem skipti konunni sinni út fyrir nýrri sýningarstúlku - því á frummálinu talaði Randy um "gigs" - styttingu á gigabyte, sem náttúrlega þýddi að fyrri spilarinn var 60 gígabæt og sá síðari 90.

Hann reyndar virkaði ekki betur en fyrirrennarinn, og eftir mikið tuð í Randy, missir lögregluforinginn, sem ég man ekki hvað heitir, þolinmæðina og stappar á spilaranum.

Öllum 90 tónleikunum.

sunnudagur, apríl 20, 2008

Heima hjá öðrum

Samtal sem átti sér stað á fréttastofu nokkurri.

A: "Heldur þú að heima hjá öllum öðrum sé alltaf rosalega fínt?"
B: "Já."
A: Heldurðu þá að það sé snyrtilegt inni í skápum hjá öllum öðrum?"
B: "Já."
A: "Heldurðu kannski líka að allir aðrir hafi nóg pláss í skápunum hjá sér fyrir allt sem þeir eiga?"
B (svolítið undrandi): "Já."
A: "Einmitt."

miðvikudagur, apríl 16, 2008

Fyrsta kílóið og góðar gjafir

Vala Matt hitti konu af indverskum ættum í morgun, sem eldaði fyrir hana ótrúlega góðan kartöflurétt. Við sýndum innslag í kvöld um þetta, og létum uppskriftina auðvitað fylgja með. Ekkert óeðlilegt við þetta, nema ég hafði ekki horft í gegnum innslagið í heild og fékk þess vegna nett slag þegar ég horfði á þáttinn í kvöld. Samt ekki innslag.

Í þessari uppskrift er nefnilega að okkar sögn fyrsta kíló af kartöflum. Ekki eitt kíló, heldur 1. kíló.

Mér fannst ég þurfa að nefna þetta sjálf. Annars myndi bleikur fíll ráfa um eterinn um ókomna tíð, fullur af fyrsta kílói af kartöflum.

- - -

Akkúrat núna sit ég með Lagavulin í glasi, að reyna að vinna gegn áhrifum alls kúrekakaffisins sem ég er búin að drekka í dag. Sé fram á góðar andvökur, þrátt fyrir að hafa vaknað klukkan fjögur í nótt við það að Lala var búin að týna boltanum sínum. Brynhildur ákvað sem sagt að taka tveggja tíma vöku milli fjögur og sex, og opnaði á hana með "botti Löllu", sem er gríðarlegt áhyggjuefni fyrir hana - þýðir að hún er að hugsa um hvar boltinn hennar Lölu sé, en hann týnist í einum Stubbaþættinum, sem hún hefur horft um það bil milljón sinnum á síðan í fyrrasumar.

Nú; geti ég ekki sofnað, á ég frábæra bók. Allar Poirotsögur sem Agatha Christie skrifaði, bæði smásögur og lengri. Erna vinkona mín gaf mér þessa bók í jólagjöf, og ég fyllist alltaf ákveðinni öryggistilfinningu þegar ég hugsa um hana. Hrikalega þykk bók, með yfir fimmtíu (fimmtugustu) sögum, sem endist og endist.

Svo gaf Logi mér allar Morseseríurnar um daginn; ég er einhvers staðar í miðri fjórðu seríu. Hann tók upp á því í vetur að panta handa mér eitt og annað að horfa á; slatta af Poirot, Midsomer Murders og svo Morse. Á þetta get ég horft út í eitt. Sofna kannski sjö kvöld í röð yfir sömu myndinni, en finnst þetta algjörlega toppurinn á tilverunni. Að eiga góða bók að lesa, eða góða mynd að horfa á.

Fyrir nokkrum árum las ég ævisögu Johns Thaw. Hann rétt náði að leika í síðustu Morsemyndinni, The Remorseful Day, áður en hann greindist með krabbamein. Ég man þegar ég las fréttina um andlát hans á BBCvefnum, nýmætt á vaktina á Rás 2 morgun einn í febrúar 2002, að mér fannst næstum eins og ættingi hefði dáið.

Svo sá ég um daginn á einhverri norrænu stöðinni, að Lewis, aðstoðarmaður Morse, var mættur án hans. Lewis er ágætis karakter, en samt...

- - -

Ég bendi á þessa ágætu útvarpsstöð hérna til hægri á síðunni. Spilar mjög geðklofa tónlist, en virkar ágætlega. Hefur farið frá teknói yfir í Dire Straits á svona klukkutíma. Ætli það sé ekki hæfileg breidd í tónlist.

þriðjudagur, apríl 15, 2008

Ég þarf að láta...

...athuga mig. Ég fékk sem sagt 1669 stig í Frelsisleiknum áðan. Hann gengur út á það að tromma á drengina í Merzedes Club, eða Rebekku og einhverjar stelpur með henni, meðan lagið Meira frelsi spilast undir. Þetta gerði ég án þess að hugurinn hvarflaði nokkurn tímann að því, að ég gæti hugsanlega eytt þessum mínútum á gáfulegri hátt.

Ég á það til að festast í tölvuleik í símanum mínum, sem er svipaður og Tetris og ég þagði í heilt ár í aftursætinu í bílnum hjá mömmu og pabba, meðan ég spilaði Donkey Kong II, Mario Bros og fleiri tölvuleiki, sem þó voru bara eitt borð, komust bara upp í 999 og bjuggu bara til fernskonar hljóð, aðallega bíbb bíbb bíbb.

Ég er einföld sál.

- - -

Ég tek undir með Agli Helgasyni í dag. Það er margt sem bankarnir hafa á samviskunni.

Einn vinnufélaga minna horfði áhyggjufullur á þessa forsíðu DV og sagði: "Hvað heldurðu að maður myndi gera ef maður þekkti nærföt dóttur sinnar á svona mynd?"
Ég huggaði hann með því að ef dóttir hans eignaðist einhvern tímann svona glyðruleg nærföt, myndi hún ábyggilega líka gera allt, sem í hennar valdi stæði, til að koma í veg fyrir að pabbi hennar sæi þau.

Með fullri virðingu fyrir glyðrulegum nærfötum.

laugardagur, apríl 05, 2008

Skrifin í 24 stundum...

...í morgun, um hárlitun Loga, minnti mig á að ég ætti vanrækt blogg á al-netinu.

24 stundir segja sem sagt í dag:
"Það vekur jafnan athygli þegar sjónvarpsmaðurinn Logi Bergmann Eiðsson breytir útliti sínu. Allt ætlaði um koll að keyra þegar hann safnaði skeggi um árið og gleraugun hans komust í fréttirnar fyrir skömmu. Í fréttatímanum á fimmtudagskvöldið virtist Logi vera með nýlitað hár, biksvart að sjálfsögðu, sem veltir upp spurningunni hvort karlinn hafi áhyggjur af einstaka gráu hári."

Af hárlitunum Loga segir það helst, að hann lét setja í sig strípur árið 1986. Þær þóttu gera sig ágætlega á diskótekunum á Ibiza það sumar, en síðan hefur hann látið sinn eigin háralit duga. Með einstaka gráum hárum hin síðari ár.

- - -

Við systir mín erum sammála um það að fólk, sem fer með dýr eins og þeir, sem skildu köttinn á Akranesi eftir innilokaðan til að deyja drottni sínum, þegar þeir fluttu út, eigi skilið einhverja svipaða meðferð. Magga systir las það sem sagt í Mogganum áðan að kisan hefði ekki lifað hremmingarnar af.

Hvernig er hægt að vera svona vondur?

þriðjudagur, mars 11, 2008

Eitt af þessum prófum...

Þetta er sem sagt próf til að komast að því hverjum maður líkist mest í Grey's Anatomy.

Gagnmerkt og vísindalegt. 

Prófið skilaði mér þessari niðurstöðu. Merkilegt.

sunnudagur, mars 09, 2008

Já, einmitt

Stundum væri ágætt að fólk hugsaði aðeins áður en það sendir áfram einhvern ruslpóst. Týpískur ruslpóstur er einhvern hörmungarsaga utan úr heimi, t.d. ein núna um barn sem brenndist, ásamt hræðilegri mynd, og hvatning um að senda póstinn áfram, annars sé maður harðbrjósta. Upplýsingar eru af skornum skammti, en tilgangurinn á að vera sá að safna fé fyrir foreldra barnsins, sem eiga að fá 3 sent fyrir hverja framsendingu.

Einmitt. Hver skyldi vera að halda utan um framsendingar? Allir helstu vefþjónar heimsins? Og hver ætlar að borga foreldrunum (ef barnið og þeir eru til) þennan pening?

Þetta minnir svolítið á tölvupóst, sem gekk um netið fyrir einu eða tveimur árum, þar sem senda átti 18 manns eitthvert bréf til að komast hjá því að borga fyrir MSN-notkun, sem átti skv. póstinum allt í einu að fara að rukka fyrir. Þegar ég hafði fengið þónokkur svoleiðis bréf, sendi ég ekkert mjög fínlega orðað svarskeyti, þar sem ég spurði hvort sendandinn væri eitthvað ruglaður...

Sem sagt: Hugsa fyrst, senda svo. Eða það sem betra er; ekki senda.

fimmtudagur, mars 06, 2008

Það er ekki sjónvarpsvænt...


...að vera að kafna úr kvefi. Ég er heyrnarlaus á hægra eyra og búin að vera það síðan í gær, og með svo mikið kvef í augunum, að ég þurfti að taka úr mér aðra linsuna í miðjum þætti og lesa af prompter einlinsa. Það var einkennilegt og ég tók eftir því einhvern tímann í miðri kynningu, að ég var farin að kipra linsulausa augað eins og hálfviti (ósjálfráð viðbrögð þegar maður sér illa).

Ég hljóma ekki beint fallega heldur, svo þetta var hálfglatað allt saman. En svona er þetta bara. Einhver þarf að gera þetta. Sölvi er farinn í frí, og Inga Lind er bara í hálfu starfi og þar að auki með fullt hús af veikum börnum, svo við Buffi erum á vaktinni, með Bödda tökumanni og Oddi.

Ég hugsa að ástandið á Stöðinni sé svipað og á ansi mörgum vinnustöðum á landinu. Fólk annað hvort veikt, nýstaðið upp úr veikindum, að verða veikt, eða með veik börn.

Það væri gaman að vita hvað öll þessi veikindi, þótt ekki væru teknir nema janúar, febrúar og mars á hverju ári, kosta þjóðarbúið. Það hlýtur að vera slatti.

þriðjudagur, mars 04, 2008

Á Old Trafford

Þessa mynd sendi Steingrímur mér af Loga á Old Trafford, 10 mínútum fyrir leik. Kominn með Unitedhúfu og -trefil.















Sennilega álíka spenntur og þegar Brynhildur fæddist. Kalt mat.

Þessi tími ársins

Um þetta leyti árs leggst ég í flensu. Mig minnir reyndar að ég hafi sloppið síðasta vetur, en ég fékk flensu fyrir allan peninginn veturinn 2006. Kannski það hafi líka verið vegna þess að ég ákvað að fara til útlanda með fjölskyldunni. Svoleiðis ákvarðanir virðast beintengdar því að ég verði veik í mars. Kannski hefði ég sloppið ef við hjónin hefðum ekki ákveðið að skella okkur saman á United - Lyon í kvöld. Á sunnudaginn fékk ég 39 stiga hita og var svo algjört drasl í gær, þannig að Logi flaug út í morgun, án mín.

Steingrímur vinur hans datt aftur á móti í lukkupottinn. Logi fékk frí fyrir hann í vinnunni, Gauja konan hans tók þátt í plottinu og pakkaði niður í tösku fyrir Steingrím án þess að hann vissi og svo fór Logi klukkan hálffimm í morgun að vekja hann, með þeim tíðindum að hann væri að verða of seinn á leikinn. Ég á enn eftir að frétta hvernig Steingrími varð við, en ég geri ráð fyrir að hann verði á endanum glaður, enda hefur hann haldið með United síðan hann var fimm ára eða svo, hefur að ég held ekki farið áður á leik á Old Trafford og er þar að auki maðurinn, sem ber ábyrgð á því ástfóstri, sem Logi tók í barnæsku við Manchester United.

En ég, - ég fór hvergi. Guð vill bara að ég sé á Íslandi. Eða kannski er hann Poolari.

föstudagur, febrúar 22, 2008

Setning kvöldsins...

...í Bandinu hans Bubba:

UB: "Nú eru fjórir áhorfendur... öh... keppendur eftir..."

Okkur hjónum fannst þátturinn skemmtilegur. Margir onelinerar (jájá, það er bara ekki til gott orð yfir þetta fyrirbæri á íslensku, allavega kann ég það ekki) hjá Bjössa. Dómnefndin góð, með gestadómara, yfirdómara og öllu. Hæfilega kæruleysislegt og mér finnst það ekkert til vansa að muna ekki hvað allir heita. Bara rokk í því. Gott líka að vera ekki að hanga neitt á þessu, heldur keyra kosninguna í gegn meðan auglýsingar og smá spjall er í loftinu.

Bandið er líka frábært og Unnur Birna kom á óvart. Það er meira en að segja það að vera svona í beinni, með tiltölulega litla sjónvarpsreynslu, pródúsentinn í eyranu og klukkuna tifandi.

Sem sagt; bara fínt sjónvarp.

Og já, Logi - þátturinn þinn er líka svaka fínn... ;o)

þriðjudagur, febrúar 19, 2008

Ég veit...

...að morgunstund gefur gull í mund, en mér finnst samt fullmikið af því góða að vakna klukkan fjögur.

Þá sjaldan ég vakna svona snemma, rifjast upp fyrir mér að þetta gerði ég alla virka daga í nokkur ár, meðan ég vann í Morgunútvarpinu á Rás 2. Það komst ótrúlega fljótt upp í vana, en ég man átakið meðan þessa fótaferðartími var að venjast. Við vorum tvö saman með útsendingu, og það okkar sem tók fyrri vaktina þurfti á tímabili að fara í loftið klukkan sex. Það þýddi ræs klukkan 4:40, rétt eins og maður væri að fara í flug alla daga.

Hér er eitt lag sem var ansi oft spilað á þessum tíma, og ég held ég hafi varla heyrt síðan við Linda Blöndal og Árni Sigurjóns vorum saman í þessu sumarið 2001, en þótti ljúft í eyra árla morguns.


Morgunútvarpstónlist er alveg kapítuli út af fyrir sig. Það er hreinlega ekki hægt að spila hvað sem er, því nývaknaðfólk virðist miklu frekar láta tónlist fara í taugarnar á sér en talað mál. Þess vegna var maður kominn með lagalista í kollinn, yfir skotheld lög síðustu fjögurra áratuga eða svo.

Þetta er annað, mun eldra, en líka gott morgunlag:


Og svo man ég að þetta var á hinum opinbera lagalista Rásarinnar þegar ég byrjaði:


Ef ég væri að vinna í morgunútvarpi núna, myndi þetta ábyggilega heyrast reglulega:


Jæja. Engin blöð komin ennþá. Best að fara að horfa á The Silent World of Nicholas Quinn, - Morsemynd úr pakka sem Logi keypti handa mér um daginn. Kannski svæfir yfirveguð glæpastarfsemi í Oxford mig.

sunnudagur, febrúar 17, 2008

Í dag...

...fór ég í ræktina. Það er í frásögur færandi.

Stundum hugsar maður gagnmerka hluti meðan maður endurtekur sömu æfinguna fimmtíu og seytján sinnum, og stundum ekki neitt. Í dag velti ég því aðallega fyrir mér, á hvað doktor Gunni væri að hlusta meðan hann hljóp, og hvers vegna hann hlypi afturábak. Í það minnsta sýndist mér hann gera það. Kannski hann hafi verið að hlusta á They're coming to take me away með Napolen XIV, B-hliðina. Þar er lagið nefnilega spilað afturábak, að minnsta kosti söngurinn.

Ég hlusta helst á eitthvert stórfenglegt píkupopp meðan ég æfi. Eins og þetta:


Það gerist augljóslega ekkert stórkostlegt í hausnum á manni á meðan maður hlustar.

Annars finnst mér rassadella allra þessara myndbandaleikstjóra vera rannsóknarefni.

laugardagur, febrúar 16, 2008

Snati er að myrða...

...klósettrúllu inni á baði. Í nokkra daga höfum við reglulega fundið klósettrúllur í henglum, annað hvort á morgnana þegar við komum upp, eða á daginn þegar við komum heim. Fram til þessa hefur Vala verið efst á lista grunaðra, en það er sem sagt Snati, sem skeytir skapi sínu á skeininum.

Annars er allt með kyrrum kjörum á heimilinu. Það er ekki eins og með mér búi árrisulasta fólk í heimi. Krakkarnir (bæði okkar og gistibörn), steinsofa, sem og Logi. Við Brynhildur rifum okkur upp fyrir átta, þótt ég hefði svo sem alveg þegið að sofa örlítið lengur. Þetta hefur verið frekar hektísk vika, með allskonar uppákomum, þannig að batteríin þurfa að komast í hleðslu.

Ég fékk þær fréttir í gærkvöldi að Guðrún, amma mín í Danmörku hefði dáið í fyrrakvöld. "Sov stille ind", eða fengið hægt andlát, eins og stóð í skilaboðunum frá Henriettu frænku minni. Hún var orðin níutíu og þriggja, þannig að það mátti svo sem búast við að þetta færi að styttast hjá henni. Jarðarförin verður á föstudaginn og mig langar að fara, en flækjustigið á því er í hærri kantinum.

- - -

Merkilegt hvað maður er eitthvað andlaus, á svona ágætis laugardagsmorgni. Að vísu dálítið þungbúið. Ég sé langa og bjarta sumardaga í hillingum, þar sem andinn blátt áfram hrynur yfir mann eigi síðar en klukkan sex á morgnana.

- - -

Hér er svo uppáhaldslagið þessa dagana:

 
eXTReMe Tracker
eXTReMe Tracker