fimmtudagur, desember 27, 2007

Er of seint...

...að óska fólki gleðilegra jóla 27. desember?

Fögur fyrirheit um jólakortaskrif urðu að engu einhvers staðar í önnum og veikindum aðventunnar. Í þessum mánuði höfum við náð ótrufluðum svefni (eða lítt trufluðum) um það bil fjórar nætur og þá verður lítið um róleg kvöld, þar sem gott er að skrifa á kort við kertaljós og allt það.

Jólakortin, sem við fengum, voru þó ákaflega vel þegin, og mér finnst sá siður skemmtilegur, að skrifa eins konar annál með jólakveðjunni, líkt og æ fleiri gera.

Það er svo margt sem maður ætlar sér að gera betur næstu jól, en þegar þau jól nálgast, virðist allt svipað og síðast. Núna er ég að hugsa um að setja inn í áminningakerfið í símanum mínum, að byrja undirbúning, jólagjafakaup, kortaskrif og slíkt í sumarfríinu.

Annars vorum við frekar afslöppuð með alla hluti núna. Það þýðir ekkert annað, - en jólin komu samt í öllu sínu veldi og við náðum að eta á okkur gat eins og vera ber.

Nú liggur fyrir að pakka niður fyrir norðurferð, þar sem við ætlum að eyða áramótunum. Mér finnst eins og þetta ár sé nýhafið og skil ekkert í því hvað tíminn líður hratt. Að sögn er það ellimerki. Ég er þá þrjátíu og þriggja ára öldungur.

 
eXTReMe Tracker
eXTReMe Tracker