laugardagur, september 08, 2007

Þetta er nú ljóta...

...veðrið. Samt svolítið notalegt, ef maður þarf ekki að fara út. Held reyndar að Spánverjarnir á Laugardalsvelli hafi ekki séð neitt kósý við þetta yfirhöfuð.

Magnað hvernig sumar á Íslandi breytist í einu vetfangi í haust. Um síðustu helgi fór ég í göngutúr með tvo yngstu fjölskyldumeðlimina, sjálf á hlýrabolnum og þær bara á peysunni. Ég byði ekki í svoleiðis klæðaburð núna. Sérstaklega ekki á þeirri yngstu, sem fékk í gær sinn fyrsta penisillínskammt. Fór akút heim úr vinnunni klukkan hálffimm, eftir að mamma hringdi í öngum sínum, enda hafði litla skottið slegið í tæplega fjörutíu stiga hita rétt áður. Ég var nýbúin að átta mig á því að á þessum rúmum þrettán mánuðum síðan hún fæddist, hefur hún aldrei þurft á lækni að halda, né heldur penisillíni. Þá er það komið. Ég vona bara að hún fái ekki í eyrun. Margra ára slagsmál við eyrnabólgu hjá syni mínum, hafa gert mig nojaða gagnvart eyrum - ef hún klórar sér einhvers staðar nálægt þeim, held ég að nú sé komið að því. Framundan séu vessandi eyru, rör, vökunætur, fúkkalyf, magaveiki, sveppasýkingar og sveppalyf...

Annars átti ég eftirfarandi samræður við þá fjögurra ára í nefndum göngutúr um síðustu helgi:
L: Veistu hvað? Þegar ég dey, verðið þið pabbi að grafa mig.
S: Ha, þegar þú deyrð? Nei, það er langt, langt, langt þangað til þú þarft að fara að hugsa um svoleiðis. Svo eiga börn alls ekki að deyja á undan foreldrum sínum.
L: Nú... (með semingi.)
S: Já, en við ætlum samt ekkert að fara að deyja neitt á næstunni, við pabbi þinn.
L: Nei. (Smá þögn. Greinilega að hugsa.)
S: Af hverju varstu annars að hugsa um þetta?
L: Bara. Veistu hvað? Þú getur ekki dáið strax.
S: Nei, vonandi ekki.
L: Nei, sko, fyrst verðurðu amma og svo deyrðu.

Auðvitað.

5 ummæli:

Unknown sagði...

Skemmtilegt samtal -- En á haustin er meira gaman að taka myndir -- lýsing og birta er allt önnur

Nafnlaus sagði...

"Það er nú ljóta veðrið" á næstum alltaf við, o sei sei. En bólar ekkert á nýrri færslu?

Nafnlaus sagði...

Á ekkert að fara að blogga aftur kæra vinkona?

Nafnlaus sagði...

Játs,tek undir með Brynju.Ég er nú ekki vinkona þín en finnst þú ægilega skemmtilegur penni. Skrifaðu eitthvað.

Nafnlaus sagði...

Ég var einmitt að velta fyrir mér hvort veðrið færi ekkert að skána þarna á Íslandi. Það er búið að vera eins í næstum mánuð...

 
eXTReMe Tracker
eXTReMe Tracker