Við Brynhildur fórum í sund í gær. Þar fór fram brúnkukeppni utanhúss með og án atrennu. Skemmst er frá því að segja að ég náði ekki lágmarkinu og var dæmd úr leik í búningsklefanum.
* * *
Ég ákvað sem sagt að nota góða veðrið í gær. Ég hef svo sem gert eitthvað af því flesta daga, þrátt fyrir væl í gær um samviskubit yfir að gera ekki nóg af því. Það sést í það minnsta á heimilinu.
laugardagur, júní 30, 2007
Keppni
föstudagur, júní 29, 2007
Góðviðrissamviskubit
Ég man ekki jafnmarga góðviðrisdaga í einu í borginni, eins og síðustu vikur. Vissulega er ekkert Spánarveður hér, en það er sól upp á næstum hvern dag, og hiti oft um og yfir fimmtán stig, sem ég held að hljóti að teljast ágætt á íslenskan mælikvarða.
Það sem gerist eftir nokkra svona daga, er að heimili manns hverfur smátt og smátt undir hrúgur af óhreinum þvotti, ófrágengnum hlutum og aðra óreiðu. Maður er nefnilega svo mikill Íslendingur, og samkvæmt óopinberum reglum íslenska lýðveldisins, ber manni skylda til að "nota góða veðrið".
Það þýðir að maður á að vera úti, helst nógu léttklæddur til að taka lit sem víðast á líkamanum (skítt með allar rannsóknir á sól og húðkrabbameini), og alls ekki elda inni.
Ég hef ekki staðið mig nógu vel í að fara eftir þessum reglum, og afleiðingin er sú að ég burðast með samviskubit yfir að vera að sóa þessum fínu dögum og varð bara fegin á miðvikudaginn þegar ég vaknaði og leit út um gluggann á sólarlausan Vesturbæ.
Þetta er sem sagt góðviðrissamviskubit. Ég er jafnvel að hugsa um að láta undan því og fara með Brynhildi í sund.
miðvikudagur, júní 27, 2007
Óvísindaleg könnun á bílaeign
Á leið heim úr Garðabænum áðan, fórum við að tala um bílaeign borgarbúa. Hún virkar stundum eins og næstum allir afli nokkurra milljóna á mánuði, og við ákváðum að gera afar óvísindalega könnun.
Frá Öskjuhlíðinni og heim töldum við jeppa og komumst í rúmlega fimmtíu. Þá erum við ekki að tala um jepplinga. Auðvitað voru þeir misgamlir og misdýrir, en að minnsta kosti fjórir þeirra voru týpur sem kosta um fimmtán milljónir.
Ég get ekki að því gert að undanfarið hef ég fengið dálitla eitístilfinningu. Upparnir eru komnir aftur, það eru allir að meika það, verða ríkir, frægir, æðislegir og eiga rosalega mikið dót.
Auðvitað er maður ekki ósnortinn af kapphlaupinu, og ég veit að ég gæti alveg sleppt mér í góða bíladellu. Málið er bara að mér finnst maður þurfa að hafa efni á að eiga svona glæsikerrur og ég dreg einhvern veginn í efa að allir þeir, sem keyra á dýrustu bílunum séu svo fjáðir.
Stundum tala menn um plebba og bílaeign í sömu andrá, en mér finnst ekkert plebbalegt að eiga flottan bíl. Það er bara plebbalegt ef maður hefur ekki efni á því, en heldur að maður sé ekki maður með mönnum að aka á venjulegum fjölskyldubíl.
Kannski verð ég einhvern tímann fín frú á enn fínni bíl, sem kostar á við góða raðhúsaíbúð á Akureyri. Það gerist þó sennilega ekki fyrr en ég hef efni á að kveikja upp í arninum, sem ég mun þá líka hafa komið fyrir í húsinu á Dalvík, með fimmþúsundköllum.
þriðjudagur, júní 26, 2007
Nokkur skilyrði til að verðskulda frægð
Mér fannst góður pistill Gerðar Kristnýjar á baksíðu Fréttablaðsins í gær. Hann má finna hér: http://visir.is/article/20070625/SKODANIR06/106250123
Hún skrifar sem sagt um hvernig talað er um ríku og frægu stelpurnar, sem eiga víst ekki að vera frægar fyrir neitt, eins og Paris Hilton og svo Önnu Nicole Smith. Ég veit ekki hversu oft ég hef hugsað einmitt þetta sem Gerður skrifar; hvers vegna fólk leyfir sér að tala svona um þessar konur.
Ég er enginn aðdáandi þeirra tveggja, Parisar eða Önnu Nicole, en þær hafa ekki truflað mig neitt í gegnum tíðina, né heldur Britney Spears. Britney er að vísu í svolítið öðrum flokki en hinar tvær, en líklega hafa þær þrjár átt fleiri fyrirsagnir í slúðurblöðum hins vestræna heims síðasta árið, en flestir hinna frægu ná út lífið.
En að punktinum, að vera frægur fyrir ekki neitt, sem oftast er haldið á lofti um Önnu og Paris. Hvað er eiginlega átt við? Skiptir svo miklu fyrir hvað fólk er frægt? Eins og til dæmis má lesa í pistli Gerðar, er Paris erfingi einnar stærstu hótelkeðju heims, með henni voru gerðar nokkrar raunveruleikaþáttaraðir, hún hefur gefið út plötu og verið fyrirsæta.
Þetta hangir sjálfsagt að einhverju leyti á þeirri spýtunni að hún var ekki óþekkt áður en allt þetta kom til, fyrir utan væntanlegan arf, en hún hefur í það minnsta sýnt að fólk hefur áhuga á því sem hún gerir, þannig að þeir sem bjuggu til þættina, gáfu út plötuna og fengu hana til að sýna föt fyrir sig, hafa talið það einhvers virði að leggja henni lið eða fá hana til að vinna fyrir sig en ekki einhvern annan.
Ég ætla ekki að detta í neinn sérstakan kvenfyrirlitningarmóðgunarham, en ég man í fljótu bragði ekki eftir mörgum karlkyns, sem hafa fengið þennan frægurfyrirekkineittogþarafleiðandiheimskljóskastimpil (nema ef vera kynni K-Fed sjálfum, eiginmanni Britneyjar, en samt ekki).
Það leiðir hugann að því hvort til séu einhver skilyrði fyrir því að verðskulda frægð, eða eitthvað sem ber að forðast til að fólk telji mann ekki hafa hlotið frægðina fyrir ekki neitt.
1) Það er betra að vera ómyndarlegur, jafnvel ljótur, eða í það minnsta þannig að því sé vart viðbjargandi með öllum mögulegum fegrunarráðum. (Hin langleita Paris Hilton er held ég engin sérstök fegurðardís, en það gleymist því hún er alltaf ákaflega vel tilhöfð.)
2) Ómæld fjárráð eru óæskileg, sérstaklega ef viðkomandi hefur ekki unnið til þeirra með eigin höndum eða hugviti.
3) Mikil athygli er ekki af hinu góða, en þar sem hún er í raun óhjákvæmilegur fylgifiskur þess að verða frægur, er þetta skilyrði ákaflega erfitt viðureignar.
4) Að vera kvenkyns er sérstakur akkilesarhæll.
Það fer sem sagt frekar í taugarnar á mér, þegar fólk segir í umvöndunartón: Hvað er eiginlega verið að segja fréttir af þessum konum, sem eru ekki frægar fyrir neitt nema að vera frægar?
Það leiðir líka hugann að hópi fólks, sem er ekki frægur fyrir neitt nema að vera einhvers staðar í erfðaröð krúnunnar í nokkrum Evrópuríkjum, en marga virðist þyrsta ákaflega í fréttir af, án þess að það sé álitið neitt athugavert. Guð veit að það fólk má hvergi vera án þess að einhver papparass birtist með myndavél og það er réttlætt með því að þetta séu opinberar persónur (sem þó gerðu ekkert af sér nema fæðast inn í ákveðna fjölskyldu) og fólk eigi rétt á að fylgjast með því og athöfnum þess.
Margir þekkja Karólínudóminn, en hann var kveðinn upp eftir að Karólína prinsessa af Mónakó kærði þýsk blöð fyrir að hundelta sig og fjölskyldu sína. Hann segir að fólk í opinberri stöðu eins og hún, eigi víst rétt á friðhelgi einkalífs eins og aðrir, þrátt fyrir fréttaþorsta einhvers hluta almennings.
Þá er maður reyndar kominn út í svolítið aðra sálma en pælingar um það hvers vegna sumir eru taldir frægir fyrir ekki neitt, og þó: Þetta hnígur þó að þeim brunni, að slúðurblöð og fleiri virðulegri miðlar, segja fréttir af þeim, sem fólk vill helst lesa, heyra og sjá fjallað um.
Fyrst sagðar eru svona margar fréttir af kóngafólki, erfingjum hundgamalla dauðra kalla og hótelvelda, hlýtur að vera áhugi fyrir þeim. Jafnvel hjá þeim sem hneykslast yfir fréttaflutningnum af þessu einskisnýta þotuliði, sem eru svo margir að varla ætti nokkur að vera eftir til að koma þeim alltaf í efsta sæti yfir mest lesna efnið á Mbl.is.
Og skiptir þá einhverju máli fyrir hvað þetta fólk varð frægt í upphafi?
* * *
Fyrst minnst er á Moggann (og þetta á reyndar við um fleiri íslensk blöð): Af hverju er í lagi að skrifa og birta alls konar hluti um útlendinga, flugufregnir úr gulu pressunni, í jafn virðulegu blað, sem myndi aldrei láta hanka sig á að skrifa þannig um Íslendinga?
mánudagur, júní 25, 2007
Um helgina...
...hef ég gengið átján holur á Jaðri
...skroppið til Dalvíkur
...smíðað sólpall
...og borðað of mikið.
Þetta síðasta er reyndar fastur liður á Norðurlandi. Hér er enn veitt eins og maður sé týndi sonurinn, nýkominn inn úr dyrunum.
mánudagur, júní 18, 2007
Aftursæti og káfað á Helga
Ég heyrði í íþróttafréttum á RÚV í kvöld að Sheffield United vill fá aftursæti í efstu deild.
Sérkennilegt.
* * *
Svo las ég í Blaðinu um helgina umfjöllun um athyglisverð atvik í sjónvarpi. Finnst eins og þetta sé alls ekki í fyrsta sinn, sem ég les eitthvað slíkt, eða þá sögur af fólki í útvarpi, sem gleymir að loka fyrir hljóðnemann og syngur, hringir í makann eða eitthvað þaðan af óheppilegra í beinni.
Ég man aldrei neitt svona, og dreg þar af leiðandi þá ályktun að allar mínar útsendingar hafi verið sléttar og felldar. Minniháttar hlátursköst og svoleiðis vitleysa telst ekki með.
Ég á þó eina eftirminnilega útsendingu og það er ekki mér að kenna, heldur Helga Seljan.
Þegar hann byrjaði með okkur Ingu í Íslandi í dag, var hann rokkari að austan, sem reykti pakka á dag og hafði örugglega ekki farið í klippingu síðan mamma hans skikkaði hann í jólaskveringuna. Þetta var í febrúar.
Í mars hafði hann komið sér upp klippingu sem hvaða hnakki gat verið stoltur af, hresst upp á húðlitinn, farið inn í líkamsræktarsal í fyrsta sinn á ævinni, í Boot Camp (og ælt reyndar, enda píndum við hann í þetta), tekið fataskápinn í gegn og síðast en ekki síst átt þessa setningu: "Stelpur, sáuð þið í Opruh í gær, að flestar konur nota brjóstahaldara í vitlausri stærð?"
Jamm. En þetta var útúrdúr, en þó ekki, því við hefðum átt að geta sagt okkur það strax í fyrstu útsendingu Helga að hann væri svolítið hégómlegur og þessi breyting væri yfirvofandi.
Við Helgi settumst inn í sett, komum okkur fyrir og svo fór stefið í loftið, ég bauð gott kvöld og horfði í myndavélina. Helgi aftur á móti pírði augun út í loftið, leit svo í myndavélina við hliðina og talaði bara í hana.
Ég reyndi eins og ég gat að fá hann til að líta í rétta vél, potaði meira að segja nokkrum sinnum í lærið á honum til að ná athygli, sem ég sá síðan þegar ég horfði á þáttinn að leit meira út eins og ég væri massívt að káfa á nýliðanum. Frábært.
Ég sveiflaðist milli þess að reyna að redda þessu með því að kóa með Helga og horfa í vitlausa vél, eða reyna sjálf að líta ekki út eins og vitleysingur og horfa í rétta átt, sem varð svo niðurstaðan, því pródúsentinn hélt bara sínu striki.
Ástæðan fyrir þessu var sem sagt sú að Helgi þurfti að nota gleraugu, en var alltof mikill töffari til þess og hafði aldrei dottið í hug að kaupa sér linsur. Hann komst að því þarna, að hann sá ekki nokkurn skapaðan hlut, og alls ekki á textavélina á myndavélinni sem við áttum að horfa í.
Helgi dó ekki ráðalaus, og ákvað þess vegna að horfa bara í myndavélina, sem hann sæi textann á, meðan ég í vonlausri baráttu við að snúa honum, káfaði á lærinu á Helga.
Hann fór fljótlega eftir þetta og keypti sér linsur, en þá tók við nýtt vandamál. Helgi reyndist svo mikil kveif, að hann gat ekki sett linsurnar í augun á sér sjálfur, og þegar Kata hans, sem þá var skrifta, en er nú einn liðsmanna Íslands í dag, var ekki á vakt til að gera það, þurftum við Inga að sjá um það. Svipurinn á gestunum, þegar við stóðum yfir Helga í sminkstólnum að troða í hann linsunum fyrir útsendingu, var stundum soltið spes.
En svona er þetta, aldrei dauður dagur með Helga.
* * *
Ég kann líka eina ágæta af Sölva og textavél. Sjáum til hvort ég græði eitthvað á að segja hana ekki...
sunnudagur, júní 17, 2007
Jújú, 17. júní...
...er svo sem ágætur, þannig. Sérstaklega þegar hann lendir á virkum degi. Mér finnst hálfgert svindl að hafa 17. júní á laugardegi eða sunnudegi, en við því er lítið að gera.
Mér finnst miðbærinn líka ágætur, það er gaman að rölta þar um, fá sér kaffi, skoða í búðarglugga og fólk.
Þetta tvennt, miðbærinn og 17. júní fer aftur á móti ekki vel saman. Það þarfnast ekki frekari útskýringa.
* * *
Oft langar mig til að hafa einhvers konar Central Park hér í nágrenninu, þar sem ég gæti farið í göngutúr með vagninn, sest niður á kaffihúsi og lesið, og leyft krökkunum að leika sér á meðan.
Hljómskálagarðurinn er sennilega það sem kemst næst því að vera okkar Miðgarður, eða kannski Laugardalurinn, með húsdýra- og fjölskyldugarðinum. Það segir sig sjálft að það eru fjölskyldur sem eru til sýnis í þeim síðarnefnda.
Laugardalurinn er ekki í göngufæri fyrir mig og því stendur Hljómskálagarðurinn eftir. Hann laðar mig ekki að sér einhverra hluta vegna, enda er fátt við að vera þar.
Er ekki kominn tími til að hressa upp á Hljómskálagarðinn?
* * *
Og af foreldrum og börnum: Nú er fimmtán, sextán stiga hiti í götunni hjá mér. Já, veðurfarið hér er nánast norðlenskt. Um daginn var eins veður og við stjúpdóttir mín fengum okkur göngutúr ásamt Brynhildi út í ísbúð. Við vorum allar léttklæddar eins og lög gera ráð fyrir.
Fyrir utan ísbúðina var kona með barn, á að giska tæpra tveggja ára, sem var að verða vitlaust. Hún skildi ekkert í ólátunum. Ef ég hefði verið þetta barn, sem var með þykka prjónahúfu, í síðbuxum, flíspeysu sem var rennd upp í háls og dúnvesti þar utan yfir, hefði ég líka orðið vitlaus.
Mamman var í þunnum bol og yfirhafnarlaus, og væsti ekki um hana.
Kannski var þetta bara almenn óþekkt, en ég hugsa að klæðaburðurinn hafi ekki bætt úr skák. Mig langaði mikið að benda henni á það sem mér fannst augljóst, að barnið væri að kafna úr hita, en gerði það ekki. Síðast þegar ég benti móður á eitthvað sem mér fannst stappa nærri vanrækslu, fékk ég engar sérstakar undirtektir.
Það var á Kristnitökuhátíð á Þingvöllum, þar sem sólin skein sem aldrei fyrr í 23 stiga hita og allt brann sem ekki var smurt með sólvörn 15. Konan var með lítið berleggjað barn í kerru, sem var orðið á litinn eins og Bónusgrísinn, en gerði enga tilraun til að hylja það. Ég var búin að fylgjast með þeim í smá tíma, og stóðst svo ekki mátið og nefndi brunann á barninu . Sagði henni að hún gæti fengið sólvörn og brunakrem í þjónustutjaldi sem var rétt hjá, en nei, henni fannst þetta óþarfa afskiptasemi.
Ég veit að einhverjum finnst þetta örugglega of djúpt í árinni tekið, en... Stundum eru foreldrar fífl.
laugardagur, júní 16, 2007
Tvífarakeppni
Ég er að hugsa um að starta trendi: Tvífarakeppni katta. Á göngu okkar um bæinn í gær, rákumst við til dæmis á þennan kött, sem er sláandi líkur Snata okkar. Aðeins stærri, sennilega svipaður og Snati væri, hefði hann ekki orðið fyrir áfalli í bernsku.
Á hann vantar að vísu fegurðarblettinn sem Snati er með við nefið, en vá; við héldum fyrst að þetta væri Snati, sem reyndar eltir okkur oft í göngutúrum.
Þeir þurfa þó helst að vera styttri en niður í bæ. Þangað fórum við til að kaupa mynd hjá Ara stórgrósser í Fótógrafí. Mér finnst reyndar að búðin hefði átt að heita Ljósmyndaverslun Ara Sigvaldasonar. Það hefði passað vel við búðina og Ara, sem á það til að vera ekki beint fulltrúi ungu kynslóðarinnar.
Þetta er mynd af myndinni sem við keyptum, tekin daginn eftir Dalvíkurskjálftann 1934. Hún verður að sjálfsögðu hengd upp á viðhafnarstað á Dalvík.
Í Fótógrafí hittum við Björn Inga Hilmarsson Daníelssonar frá Dalvík, ásamt systur, sem býr þar enn. Amma þeirra og afi leigðu víst neðri hæðina af ömmu minni og afa á Karlsbrautinni, meðan þau voru að byggja. Svona er heimurinn lítill. Eða Dalvík, allavega.
Brúna fólkið
Ég er dottin í Agöthu Christie. Það gerist öðru hverju. Þótt formúlan geti ært óstöðugan og biðin eftir hinu óumflýjanlega morði geti orðið fulllöng, eru þetta skemmtilegar bækur. Uppáhaldið mitt er spjátrungurinn Poirot.
Bækurnar, sem ég hef verið að lesa núna, eru frekar fyndnar, því þær eru skrifaðar áður en kynþáttafordómar voru fundnir upp, eða í það minnsta áður en það að telja brúna fólkið vitleysinga og ónytjunga, taldist óviðeigandi.
Sögupersónurnar, sem ferðast um í útlöndum á fyrsta farrými, býsnast yfir Aröbum, Indverjum, svertingjum og helst öllum sem eru eitthvað litaðir. Svo er gert í því að sýna fyrirlitningu Breta á útlendingum yfirhöfuð, jafnvel hinum bleiknefjaða Poirot, en sennilega hefur það átt að endurspegla víðsýni höfundar, að reka augun í það að þar væri fulllangt gengið.
Auðvitað er ég ekki sammála þessum persónum Agöthu Christie, en það er samt ótrúlega hressandi að lesa texta, sem er svo gjörsamlega laus við pólitískan rétttrúnað. Þetta er svolítið eins og Tinnabækurnar.
Enid Blyton átti víst líka að hafa verið einhver meiriháttar rasisti og geysilega óholl aflestrar fyrir óharðnaðar sálir. Ég las allt sem ég náði í eftir hana, sem barn, og held ég hafi ekki beðið neinn sérstakan skaða. Ég skildi eiginlega miklu síður, þegar þessi umræða kom upp, hvers vegna enginn syrgði hlutskipti aumingja Önnu (í hvaða bókaflokki eftir Blyton sem var), sem var hin hrædda og húslega stúlka holdi klædd. Hefði það ekki verið ástæða til að fá feminískt kast?
* * *
Ég minntist einhvern tímann á Orhan Pamuk, og bókina hans um svörtu bókina, The Black Book. Hana keypti ég í mars og byrjaði að lesa skömmu síðar. Hún hefur hlotið þau örlög að verða bók þessa árs. Ekki vegna þess að mér finnist hún svo frábær (hún er reyndar ágæt), heldur vegna þess að með sama áframhaldi klára ég hana um jól.
föstudagur, júní 15, 2007
Jæja...
...ég er sem sagt flutt, í það minnsta þangað til ákveðnum hlutum verður kippt í lag á Vísisblogginu. Ég er bara svo mikið kontrólfrík að ég verð að hafa fullkomna stjórn á mínu eigin bloggi, og það þýðir miklu fleiri fídúsa en Vísisbloggið býður upp á sem stendur.
Ég kann vel við WordPresskerfið, en það er erfitt að kenna gömlum hundi að sitja. Kannski þykir einhverjum það fánýtt, en það fór óstjórnlega í taugarnar á mér að vita ekki hver væri ástæðan, þegar teljarinn tók á rás; hver væri að linka á mann og í hvaða samhengi.
Ég bið bara mitt fólk á Vísi velvirðingar á liðhlaupinu, en sný aftur þegar ég fæ að ráða öllu sem mér dettur í hug og meiru til á blogginu mínu þar.
* * *
Kannski hefur einhver misskilið linkinn á rugluðustu keppni landsins, á ernae.blogspot.com (finn ekki hvernig ég bý til krækju á Blogger með safarivafra... abbsaggið). Ég kann vel að meta svona nördakeppni, enda áhugamaður um spurningaleiki hvers konar.
Það sem mér finnst magnað er að muna öll þessi smáatriði úr Ísfólksbókunum. Bækurnar eru jú 47 og persónurnar í þeim skipta örugglega hundruðum, þótt aðalpersónurnar séu ekki svo margar. Einhvern tímann kunni ég ættartréð utan að (já Erna, aðfasisti), en ég bendi á að ég kunni líka ættartré Njálu og öll möguleg tengsl sögupersóna þegar ég var sautján.
Nú gæti ég ekki hóstað upp einum tíunda af þessu þótt ég ætti að bjarga lífi mínu.
Ég vona að ég fari aftur að muna hluti þegar ég verð búin að koma upp börnunum, og hef meiri tíma til að nördast. Akkúrat núna er ég bara með valkvætt minni, og það er alls ekki öruggt að það sem ég man í dag hafi ég munað í gær, hvað þá að það verði finnanlegt í hausnum á mér á morgun.
Minnið er skrýtin skepna.
Annars er á döfinni að grafa upp Ísfólksbækurnar. Kannski ég geti þá verið með í þessari keppni.
* * *
Var að hugsa um þessar bækur í gær, meðan ég þrammaði um Vesturbæinn með Brynhildi á bakinu. Ég held að sú fyrsta hafi komið út 1983. Þá var ég níu ára. Til allrar guðs lukku byrjaði ég ekki að lesa þær þá, heldur nokkrum árum síðar, en var samt algjör kjúklingur þegar ég las fyrstu bókina.
Það var að mig minnir bók númer fimm í bókaflokknum, sem ég man ekki hvað heitir en var um einhvern lamaðan og getulausan afkomanda Silju og Þengils. (Já, afsakið, ég man ekki hvað hann heitir.) Hann hélt að hann væri hommi, en komst svo að því að það var algjör misskilningur. Hann var bara með byssukúlu í hryggnum eða eitthvað álíka. Ætli Gunnar í Krossinum ætti ekki að íhuga að kaupa sér málmleitartæki?
Ástæðan fyrir því að ég þakka guði og lukkunni fyrir að hafa ekki dottið í þessar bækur níu ára, er að þær eru varla við barna hæfi. Dónalegu senurnar eru ófáar, sérstaklega í fyrstu bókunum og mig minnir meira að segja að Margit Sandemo hafi sagt frá því einhvers staðar, að konum, sem áttu í einhverjum vandræðum á beðmálssviðinu, hafi verið ráðlagt að lesa þessar bækur.
Ég sem sagt las allar bækurnar 47 og held ég hafi tekið að minnsta kosti tvær umferðir á þeim. Það er þó orðið langt síðan ég las þær síðast. Þegar síðasta bókin kom út, fylgdi annar bókaflokkur, um Galdrahöfðingjann, sem ég man ekki hvort ég átti allan, og svo bókaflokkur sem hét Ríki ljóssins, eða var þetta sami flokkurinn? Ha, Erna?
Ég missti áhugann á honum, þegar hann leystist upp í eitthvert rugl, í þessu ágæta Ríki ljóssins, og allt í einu var farið að tína inn gamla félaga úr Ísfólksbókunum. Sá þrettándi varð full þunnur fyrir mig.
Velti því samt fyrir mér hvort þessi bókaflokkur hafi átt einhvern endi, eða orðið gjaldþroti útgáfunnar að bráð. Spyr ég nú enn, Erna... Eða einhver, sem er mér vitrari um þessi mál.