...að óska fólki gleðilegra jóla 27. desember?
Fögur fyrirheit um jólakortaskrif urðu að engu einhvers staðar í önnum og veikindum aðventunnar. Í þessum mánuði höfum við náð ótrufluðum svefni (eða lítt trufluðum) um það bil fjórar nætur og þá verður lítið um róleg kvöld, þar sem gott er að skrifa á kort við kertaljós og allt það.
Jólakortin, sem við fengum, voru þó ákaflega vel þegin, og mér finnst sá siður skemmtilegur, að skrifa eins konar annál með jólakveðjunni, líkt og æ fleiri gera.
Það er svo margt sem maður ætlar sér að gera betur næstu jól, en þegar þau jól nálgast, virðist allt svipað og síðast. Núna er ég að hugsa um að setja inn í áminningakerfið í símanum mínum, að byrja undirbúning, jólagjafakaup, kortaskrif og slíkt í sumarfríinu.
Annars vorum við frekar afslöppuð með alla hluti núna. Það þýðir ekkert annað, - en jólin komu samt í öllu sínu veldi og við náðum að eta á okkur gat eins og vera ber.
Nú liggur fyrir að pakka niður fyrir norðurferð, þar sem við ætlum að eyða áramótunum. Mér finnst eins og þetta ár sé nýhafið og skil ekkert í því hvað tíminn líður hratt. Að sögn er það ellimerki. Ég er þá þrjátíu og þriggja ára öldungur.
fimmtudagur, desember 27, 2007
Er of seint...
þriðjudagur, nóvember 20, 2007
Sko...
...ég ætla ekkert að fara að býsnast út í snemmbúin jól, en samt - er ekki fullsnemmt að bjóða manni gleðileg jól á mjólkurfernu, sem er með síðasta söludag 22. nóvember? Hvað þá að hafa átt svoleiðis fernur í skápnum í um það bil tvær vikur, nú þegar þetta er skrifað.
Fyrst ég er byrjuð að nöldra; ég er í fýlu út í Lyf og heilsu í dag. Fór í uppáhaldsapótekið mitt á horninu á Melhaga og Hofsvallagötu og komst að því að þar er verið að pakka niður öllu skemmtilega dótinu, snyrtivörunum og því sem sennilega fellur undir munað. Þegar ég spurði hverju sætti, var mér sagt, að Lyf og heilsa væru að draga saman þarna, fljótlega yrði þetta bara eitthvert apótekaraapótek, án skemmtilegu hlutanna. Hrmpfh. Ég mun samt áfram geta leyst út lyf, keypt hóstasaft og svoleiðis, en ég er búin að skipta við þetta apótek síðan ég flutti á Reynimelinn fyrir tólf árum, og vil ekki sjá svona breytingar. Get ég fengið Vesturbæjarapótekið mitt aftur?
miðvikudagur, nóvember 14, 2007
Plata dagsins...
...er Ferðasót Hjálma. Hún var reyndar líka plata gærdagsins, mánudagsins og helgarinnar, og ekkert bendir til þess að hún verði ekki plata morgundagsins.
Það er langt síðan ég hef dottið svona í íslenska plötu. Ég bíð bara eftir því að samstarfsmenn mínir fari að gráta undan Hjálmum, eins og vinnufélagar mínir í unglingavinnunni, sem geta örugglega ekki enn þann dag í dag hlustað á plötuna Zooropa með U2. Ég á það víst til að ofhlusta á tónlist.
Hér á kontórnum fer stundum fram samhlustun. Við Oddur unum okkur vel við að kynna nýja tónlist hvort fyrir öðru og rifja upp gamla slagara, Sölvi virðist láta sér það lynda og tekur jafnvel þátt, en Inga lætur sem hún heyri ekkert, enda ekki fulltrúi tónvísra og sennilega með áhugalausara fólki um tónlist. Pródúsentinn okkar, hann Böddi, leysir þetta með því að sitja hinum megin með heyrnartól á kollinum.
* * *
Miðað við hvað ég er mikið fyrir tónlist, er eiginlega skrýtið hvað þessi tilhneiging, að hafa tónlist alls staðar, á biðstofum, í verslunum, hárgreiðslustofum, verkstæðum og guð má vita hvar, getur farið í taugarnar á mér.
Ég byrjaði daginn á að fara í klippingu. Ég á yfirleitt fyrsta tíma dagsins hjá Arnari og oft erum við ein á stofunni til að byrja með, í fullkominni þögn. Þegar næsti starfsmaður kemur er kveikt á græjunum og diskur númer njöhundruð af Buddhabar settur á. Mér þykir þetta svo mikill óþarfi, en er eiginlega í mótsögn við sjálfa mig, því mér finnst sjálfri ágætt að sitja við tölvuna með tónlist á.
Tískuverslanir með dúndrandi tónlist hvíla á botninum á vinsældarlistanum hjá mér. Það er nógu þreytandi að standa með hárið út um allt, á nærbuxunum einum fata í oflýstum mátunarklefa, þótt Nelly Furtado að myrða Maneater bætist ekki ofan á eymd manns.
sunnudagur, nóvember 11, 2007
Jahérna
Það er víst kominn 11. nóvember. Fæðingardagur Matthíasar Jochumssonar og Kristbjargar Héðinsdóttur, vinkonu minnar og íbúa í Laxárvirkjun 4 hér í den. Einu sinni fengu MA-ingar frí þennan dag, Matthíasi til heiðurs, en mér skilst að það sé liðin tíð. Við fengum líka hlaupaársfrí, ég veit ekki hvort það er líka búið að vera, ætli það komi ekki í ljós 29. febrúar 2008? Og vetrarfrí, Brynjufrí og söngsal... Í minningunni er þetta eitt gott frí, fyrir utan próftíðir og síðustu tímana í efnafræði á föstudögum í 2. bekk.
En, já. Það er nákvæmlega ekkert markvert að frétta. Ég fer í vinnuna, er þar fram á kvöld og fer svo heim. Tókst að vísu að ná langri helgi í síðustu viku og fara norður. Fórum á tónleika nýdanskra í Samkomuhúsinu á þriðjudagskvöldið. Það var góð skemmtan. Björn og Jón voru í hlutverki sögumanna og svo kom í ljós að Daníel Ágúst, sem var sá leynigestur sem minnst hefur komið á óvart í heiminum, (ekki síst eftir að hann var látinn skipta um streng fyrir Stefán Hjörleifsson og færa honum gítarinn inn á svið), var líklega einn af um það bil tveimur í húsinu, sem ekki mundi textann við Frelsið. Það vakti mikla lukku, bæði í bandinu og úti í sal, en eftir örstutta upprifjun rann textinn og lagið ljúflega. Þeir voru frábærir.
Ég hafði gert þau mistök að tæma vasana af smápeningum áður en ég fór að heiman, - ég hefði haft mikil not fyrir þá á tónleikunum. Tveimur bekkjum fyrir framan mig sat maður, sem hafði geysilega mikla þörf fyrir að syngja með hástöfum og láta öllum illum látum. Mér finnst að það eigi að vera bannað á svona tónleikum, og hefði látið peningana dynja á hausnum á honum hefði ég haft þá. Komst svo að því, eftir tónleikana, að ég kannaðist við kauða, svo ég lét mér nægja að segja honum, góðlátlega þó, að flestir hefðu sennilega verið komnir til að hlusta á drengina nýdönsku, en ekki hann. Hann tók því vel, og sagðist hafa verið fenginn til að halda uppi stemmningunni úti í sal... Hver fékk hann til verksins fylgdi aftur á móti ekki sögunni.
Ég reyndi að gera mér í hugarlund viðlíka aðstæður á tónleikum Melabandsins. Sé til dæmis einhvern mæta með sitt eigið selló og jafnvel magnara, og sarga af innlifun á fimmtánda bekk. Það væri gaman að sjá viðbrögð handhafa áskriftarkorta við því.
Annars þakkaði ég mínu sæla í dag, fyrir að hafa ekki ákveðið að fara á Edduna. Brynhildur missti nefnilega rjómasprautuna, kílósþungt járnflykki, ofan á tána á mér, sem nú er tvöföld og óbeygjanleg, og hefði ekki með nokkru móti verið hægt að koma í neitt fínna en gúmmístígvél í kvöld. Kannski einhverjum skrýtnum, sjálfskipuðum tízkugúrú hefði þá þótt ég töff - í sparikjól og stígvélum?
Svo er ég búin að lesa Harðskafa eftir Arnald. Hún er góð. Jón Yngvi ætlar að gagnrýna hana í Íslandi í dag annað kvöld. Þetta er minn "ritdómur", nokkrar línur sem ég sendi Jóni áðan, í pósti um reyndar allt annað, en þar sem ég var nýbúin að leggja bókina frá mér, stóðst ég ekki mátið að blaðra aðeins um hana:
Mér finnst gott að lesa Arnald, því hann er svo auðlesinn. Gott mál, góður texti og bara ein innsláttarvilla í allri bókinni. (Þetta er mælikvarði hins einhverfa lesanda, sem ég jú er.) Textinn rennur vel, og mér líkar við Erlend. Hann er pínu Rebus, svo ófullkominn í sjálfum sér og krumpaður á sálinni, en góð lögga. Mér finnst Arnaldi líka takast vel upp að segja allar þessar sögur í einu, án þess að það rugli mann neitt og uppbygging sögunnar er oft góð, - hann segir manni ákveðna hluti fyrst og lætur mann svo fylgjast með einhverri persónunni, sem er í þann veginn að fara að upplifa þá. Það er nettur Íslendingasagnafílíngur í þessu; forboði, atburður og frásögn. Helst fannst mér vanta einhverja spennu í þetta, en svo er ég samt ekki viss, því einhver hallæris[ritskoðað]spennuendir hefði verið ótrúlegt stílbrot í þessari lágstemmdu og kurteislegu sögu um Erlend vin minn. Mér finnst þetta nefnilega fyrst og fremst vera saga um Erlend. Ekki Maríu eða Baldvin eða Leónóru eða Guðrúnu, Davíð eða yfirhöfuð neinn annan sem nefndur er á nafn.
Ég myndi allavega gefa þessari bók þrjár stjörnur.
fimmtudagur, október 04, 2007
Fyrirsögnin gæti alveg...
...verið áfram: "Þetta er nú ljóta veðrið". Það rigndi svo brjálæðislega þegar ég kom út úr Skaftahlíðinni, að ef ég hefði verið mikið seinni, hefði bíllinn minn verið flotinn burt.
Ýmsum þykir ég ekkert sérlega dugleg að blogga. Það er ekki alveg galið, en ég er venjulega svo þurrausin þegar ég kem heim á kvöldin, að ég næ rétt að vera mamma í svona klukkutíma, einn og hálfan á góðum degi, borða og gefa öðrum að borða, svæfa, og koma sjálfri mér í rúmið. Inn í þetta prógramm hefur mér ekki tekist að koma reglulegu bloggi, sem er þó sennilega ekki eina ástæðan fyrir bloggfallinu, heldur almennur skortur á sköpunargáfu.
Og svo vaknar aumingja litla barnið mitt alltaf, ef mér á annað borð dettur í hug að setjast niður og skrifa eitthvað. Kannski ekki nema von að hún sé svefnlétt, litla skottið búið að taka átta tennur á mánuði. Það tekur á.
Eins og við manninn mælt, heyrist í hlustunartækinu: Maaaammmma....
laugardagur, september 08, 2007
Þetta er nú ljóta...
...veðrið. Samt svolítið notalegt, ef maður þarf ekki að fara út. Held reyndar að Spánverjarnir á Laugardalsvelli hafi ekki séð neitt kósý við þetta yfirhöfuð.
Magnað hvernig sumar á Íslandi breytist í einu vetfangi í haust. Um síðustu helgi fór ég í göngutúr með tvo yngstu fjölskyldumeðlimina, sjálf á hlýrabolnum og þær bara á peysunni. Ég byði ekki í svoleiðis klæðaburð núna. Sérstaklega ekki á þeirri yngstu, sem fékk í gær sinn fyrsta penisillínskammt. Fór akút heim úr vinnunni klukkan hálffimm, eftir að mamma hringdi í öngum sínum, enda hafði litla skottið slegið í tæplega fjörutíu stiga hita rétt áður. Ég var nýbúin að átta mig á því að á þessum rúmum þrettán mánuðum síðan hún fæddist, hefur hún aldrei þurft á lækni að halda, né heldur penisillíni. Þá er það komið. Ég vona bara að hún fái ekki í eyrun. Margra ára slagsmál við eyrnabólgu hjá syni mínum, hafa gert mig nojaða gagnvart eyrum - ef hún klórar sér einhvers staðar nálægt þeim, held ég að nú sé komið að því. Framundan séu vessandi eyru, rör, vökunætur, fúkkalyf, magaveiki, sveppasýkingar og sveppalyf...
Annars átti ég eftirfarandi samræður við þá fjögurra ára í nefndum göngutúr um síðustu helgi:
L: Veistu hvað? Þegar ég dey, verðið þið pabbi að grafa mig.
S: Ha, þegar þú deyrð? Nei, það er langt, langt, langt þangað til þú þarft að fara að hugsa um svoleiðis. Svo eiga börn alls ekki að deyja á undan foreldrum sínum.
L: Nú... (með semingi.)
S: Já, en við ætlum samt ekkert að fara að deyja neitt á næstunni, við pabbi þinn.
L: Nei. (Smá þögn. Greinilega að hugsa.)
S: Af hverju varstu annars að hugsa um þetta?
L: Bara. Veistu hvað? Þú getur ekki dáið strax.
S: Nei, vonandi ekki.
L: Nei, sko, fyrst verðurðu amma og svo deyrðu.
Auðvitað.
sunnudagur, september 02, 2007
Æsispennandi laugardagskvöld
Mér er það stórlega til efs að margir geti toppað þetta laugardagskvöld mitt. Vaknaði klukkan hálftíu í kvöld, eftir að hafa sofnað með Brynhildi um hálfsjö, borðaði aðallega kartöflusalat í kvöldmatinn og skúraði svo alla efri hæðina.
Það er aldrei að vita nema morgundagurinn slái þennan dag út, verandi ein með alla ómegðina og Loga í golfi frá átta til fimm.
Jamm. Ég kann að skipuleggja helgarnar.
þriðjudagur, ágúst 28, 2007
Samúðarkveðjur til laganema
Páll Hreinsson prófessor er að verða hæstaréttardómari. Ég skil vel að menn vilji hann í réttinn, en það er geysileg eftirsjá að honum í lagadeildinni. Nú á ég reyndar ekki eftir neina kúrsa, en ég ber vissulega umhyggju fyrir komandi kynslóðum laganema og votta þeim samúð mína. Að þeir fái ekki að sitja tíma hjá Páli Hreinssyni í stjórnsýslurétti eða öðrum greinum, sem hann hefur kennt gegnum tíðina er hreint út sagt agalegt.
Hann er frábær kennari, veit allt (og þá meina ég allt) sem hægt er að vita um það sem hann kennir, og ef vera kynni að einhver spyrði um eitthvað, sem hann var ekki alveg klár á, (eins og gefur að skilja gerðist það sárasjaldan) gat sá hinn sami verið viss um að fá gott svar í næsta tíma.
Sennilega hefði hann orðið góður í hverju sem hann hefði tekið sér fyrir hendur; ef ég man rétt valdi hann á milli orgelleiks og lögfræði. Í fúlustu alvöru. Hann varð bara að gefa sig allan í annað hvort.
Afburðir kosta, þannig er það nú bara. Og nú verður hann afburðahæstaréttardómari.
mánudagur, ágúst 27, 2007
Órækt og óminni
Þetta blogg er vanrækt. Ég hef annir mér til afsökunar. Ég þekki fólk sem bloggar sáralítið og hefur ekkert sér til afsökunar. Nú ætla ég ekki að fara neitt að nafngreina þetta fólk, en það veit við hverja ég á og tekur þetta til sín.
Svo skal böl bæta...
* * *
Hvað skyldi þá vera að frétta? Tja. Í gær drap ég geitung. Það telst stórfrétt á mínu heimili, enda drep ég ekkert kvikt, nema roðamaura. Einhverra hluta vegna ná þeir ekki inn á friðunarlistann hjá mér. Geitungurinn þessi var að gera sér dælt við Brynhildi, og lengra nær ekki mannúð mín gagnvart þessum kvikindum. Hitt skiptið sem ég hef drepið geitung, þá reyndar heilan hóp þeirra, réðust ófétin á son minn og stungu illa. Hann rifjar þetta enn stöku sinnum upp, og það er til marks um hetjudáð mína, að honum er það miklu minnisstæðara hvað ég myrti flugufávitana með miklum tilþrifum, heldur en hversu bólginn og sár hann var um allan líkamann.
Svo er ég líka byrjuð að vinna aftur, og er í óða önn að samhæfa fjölskyldulíf og vinnu. Það er nú ljóta rassgatið. Ég mæli eindregið með því að fólk eigi börn meðan á námi stendur, og þá meina ég háskólanámi, það er óþarfi að börn eigi börn, því þótt það sé leiðinlegt að vera í prófum fram að jólum í stað þess að föndra með börnunum og allt það, þá er maður meira sjálfs sín herra, heldur en flestir eru í vinnu.
* * *
Annars er örugglega tíðindalaust á vesturvígstöðvunum, eða ég er búin að gleyma flestu markverðu. Við Inga fórum reyndar í dag og keyptum okkur minnisbækur. Mér veitir ekki af. Þurfti að hringja í mömmu í kvöld, til að spyrja hana hvað hún hefði talað um við mig þegar hún hringdi einhvern tímann eftir hádegi. Ég gat ómögulega munað það. Svo rann upp fyrir mér ljós í gærkvöldi, - ég hafði fyrir tveimur vikum lofað að skrifa smá minningarbrot fyrir ágætan mann, og senda honum umhælis. Svo steingleymdi ég því bara. Nú vil ég taka fram að ég hef aldrei sniffað lím, en mér þykir góð lykt af bensíni. Held að ég hafi bara dælt sjálf svona þrisvar á bílinn í sumar, svo ekki getur það verið málið.
Held að svarið hljóti að vera truflaður svefn, því einhvern tímann las ég það að mæður ungra barna stríddu við slæmt skammtímaminni. Það þyldi ekki allt þetta svefnleysi og/eða sírofinn svefn. Ég glími við hvort tveggja.
Inga sagði meira að segja í dag þar sem við sátum og borðuðum: "Er þetta hádegið þar sem ég blaðra og blaðra og þú situr bara og þegir?"
Þetta er í sjálfu sér ekkert merkilegt, nema fyrir þær sakir að ég hélt ég hefði verið að halda uppi samræðum. Jafnvel hrókasamræðum. Að sögn hafði ég bara setið og japlað á samlokunni minni án þess að segja orð.
Þarna er kannski komin skýringin á því af hverju ég held því reglulega fram að Logi muni ekkert sem ég segi honum. Ég hef sennilega aldrei sagt það.
laugardagur, ágúst 18, 2007
Ómenning í Vesturbænum og verslunarfælni
Við mæðgurnar látum menningarnótt vandlega fram hjá okkur fara þetta árið. Þetta er önnur menningarnótt Brynhildar, sem svaf mestalla þá síðustu (og daginn líka), meðan ég var á haus í eldhúsinu að elda ofan í þrjúhundruð manns, sem mættu til okkar í súpupartý í garðinn á Ránargötu. Sennilega er Hulda, fyrrverandi nágrannakona okkar með súpu núna, en við mæðgur erum kvefaðar fyrir allan peninginn og létum okkur nægja að fara út í okkar eigin garð í dag.
Afrekuðum reyndar að fara út í Melabúð, sem er afrek, bæði vegna heilsuleysisins og svo vegna þess að við Brynhildur virðumst þjást af sama kvilla og Jodie Foster; innkaupafælni. Það bregst ekki að Brynhildur fer að væla í kerrunni, um það bil hálfri mínútu eftir að ég fer með hana inn í búð. Stundum nær hún að halda aðeins lengur út, ef hún fær að sitja í innkaupakerru, en ekki í sinni eigin, en það er þó engin regla.
Mér finnst svo leiðinlegt í búðum, að ég held stundum að ég hafi fundið upp alveg nýja sparnaðarleið. Oft kaupi ég mér ekki hluti, sem mér þó finnst mig vanta, vegna þess að ég fæ mig ekki til þess. Svo tek ég rispur á milli, hysja upp um mig og skeinist í næstu verslunarmiðstöð og reyni að kaupa allt, sem mig mögulega gæti vantað næsta hálfa árið eða svo. Mér fannst reyndar best að kaupa skó og föt á mig og krakkana í útlöndum, en síðan örverpið kom í heiminn, hef ég verið afar heimakær og hef þess vegna þurft að gera þetta hér.
Ég fer yfirleitt með lista í búðina, því annars gleymi ég helmingnum og þarf að fara aftur, sem er ómögulegt. Ég hef nefnilega komist að því að einhver mekanismi í hausnum á mér læsist eftir smástund inni í t.d. matvöruverslunum, þannig að mér finnst eins og ég þurfi ekki að kaupa fleira og geti bara komið mér út.
Stundum þyrmir líka yfir mig þegar ég kem á kassann, og horfi á hlut eftir hlut renna eftir bandinu, vitandi að ég þarf að setja hvern einasta ofan í poka, drösla þeim út í bíl og taka svo allt upp heima og raða í skápa. Ég veit alveg að þetta er óumflýjanlegt og hluti af daglegu lífi, en mér finnst þetta sjúklega leiðinlegt.
Undantekningar frá verslunarleiðindunum eru apótek og bakarí. Og mögulega svona bykohúsasmiðjubúðir.
Sennilega er samt ágætt að eiga ekki við mikið stærri vandamál að stríða, en að leiðast búðarferðir, vera með hálsbólgu og kvef og - ehemm - missa af menningarnótt í miðborginni.
fimmtudagur, ágúst 16, 2007
Bjána Legt
Dóttir mín stillti á sjónvarpsmarkaðinn á Skjá einum í morgun. Verið var að auglýsa vöru, sem þar heitir Grenningar Tvennan. Jamm, segi og skrifa Grenningar Tvennan.
Þetta þótti mér óheyrilega vitlaust. Í fyrsta lagi að halda því fram að eitthvert duft, sem ætlað er til átu, geti verið grennandi, (án þess að vera eitthvert ólöglegt eiturbras) og í öðru lagi að klúðra heitinu á því svona gjörsamlega.
Það finnst mér, í besta falli, vera Bjána Legt.
mánudagur, ágúst 13, 2007
Frestur er á illu bestur
Ég sit hér með kaffi í glasi, sem ég missti næstum á leiðinni inni í stofu, af því ég drekk svo heitt kaffi, að ég get ekki haldið á því, nema í könnu. Hef oft spáð í að láta athuga þetta drykkjarhitaþol. Mældi einhvern tímann kaffið mitt og komst að því að það var um 70° heitt.
Fyrir liggur að laga til í húsinu og pakka niður því, sem ég ætla að taka með á morgun. Þar sem ég er enn lúin eftir helgina og í almennu letikasti, ákvað ég fyrst að setjast niður og horfa á eitthvað í sjónvarpinu. Komst svo að því að það er ekkert í kassanum. Hef ákaflega lítið þol fyrir sjónvarpsþáttum um fólk á eyðieyjum/sjóræningjaskipum/ferðalögum um heiminn, sem keppir í að gera ógeðslega hluti, nenni ekki að horfa á lokaþátt af einverri þáttaröð, sem ég hef aldrei horft á og langaði ekki að horfa á enn einn lögfræðingaþáttinn.
Fór í staðinn að vafra um netið, á ýmsar bloggsíður og hlusta á tónlist. Gummijoh.net lumar oft á ágætri tónlist og svo má finna eitt og annað á Myspace.com. (Hef reyndar velt því fyrir mér til hvers maður ætti að vera með Myspacesíðu og hef ekki komist að neinni niðurstöðu.) Síðast en ekki síst er snilldarsíðan last.fm, sem ég hef notað síðan í vor. Þar getur maður búið til sína eigin útvarpsstöð, ekki ólíkt og Launchcast, sem ég notaði mikið einu sinni, en er vonlaust að fá til að spila fyrir sig í fullum gæðum núna, út af einhverjum réttindamálum. Last FM er ekki með neitt svoleiðis vesen, svo þar er hægt að hlusta og hlusta og hlusta, án þess að ergja sig yfir ömurlegum hljómgæðum.
Hér er sýnishorn af því sem ég hef verið að hlusta á undanfarið...
sunnudagur, ágúst 12, 2007
42
Þá erum við orðin fjögur í kotinu aftur, en ekki sautján eða tuttugu, eins og á tímabili. Fæst höfum við verið níu, síðan á miðvikudag. Vissulega er nokkuð rólegra núna, en gestirnir voru aufúsugestir, sem var gaman að hafa. Úthlutun tjaldstæða, fyrir næstu fiskidagshelgi, hefur þegar farið fram.
Logi liggur í sófanum og horfir á The Hitchhiker's Guide to the Galaxy, ég var að ljúka við að vaska upp. Sjálfvirka uppþvottavélin mín fór nefnilega heim til sín í dag.
Þrátt fyrir óumdeilt notagildi uppþvottavélar, er hún ekki efst á óskalistanum fyrir næstu fiskidagshelgi, heldur stór gaseldavél, með níutíu sentimetra ofni (eða tveimur ofnum). Og annað baðherbergi. Eitt klósett krefst góðrar samvinnu og magaheilsu allra, þegar svona margir eru í heimili...
Annars bara allt gott, nema okkur líður eins og sumarið sé búið. Dalvíkurdvölin senn á enda að sinni og alvara lífsins að taka við. Ég spái því að við fáum bæði heimþrá, þegar við förum héðan.
laugardagur, ágúst 11, 2007
Hér er...
...ótrúlega margt fólk, sem gistir á tjaldstæðum, í húsagörðum og bara hverjum lausum bletti, sem finna má.
Mér skilst að fólk hafi verið duglegt að skreyta hús og garða, og börn vinafólks okkar spurðu, þegar þau óku inn í bæinn í gær, hvort það væru að koma jól á Dalvík. Það liggur við.
Ég hef reyndar ekki séð mikið af bænum, eiginlega bara götuna mína, enda verið mest í eldhúsinu tvo síðustu dagana. Okkar reiknast svo til, eftir gestabók, að hingað hafi komið um 600 manns í súpu í kvöld.
Vona að þeim hafi þótt súpan ágæt. Mér er nokkuð sama þótt ég sjái ekki fiskisúpu næstu vikuna, eða svo.
þriðjudagur, ágúst 07, 2007
Fiskidagurinn nálgast...
...og allir sem vettlingi geta valdið á Dalvík, snyrta nú garða sína með flísatöngum og þrífa utan sem innan með eyrnapinnum. Þetta getur vissulega verið svolítið seinlegt, en fínt verður það.
Ég virðist hafa gleymt vettlingunum mínum og reyndar eiginmanninum líka í Reykjavík, þannig að enn er garðurinn okkar þakinn ógeðsmoldinni, sem rauk úr torfinu, sem pabbi og Logi rifu ofan af háaloftinu fyrir helgi, við eigum eftir að slá og það lítur út fyrir að trén, sem ég ætlaði að losa mig við, fái að tóra til haustsins. Svo rifjaðist það upp fyrir mér úti í Húsasmiðju í morgun, þegar einhver fór að tala um að hann hefði ekki fengið fiskidagsfiskinn, að okkar er ómálaður. Ég spái því að skreytingarnar á honum verði frekar mínímalískar.
Góðu fréttirnar eru þær, að frystikistan mín er að fyllast af fiski og það eru Ólafsfirðingar, sem eiga mestan heiður af því. Kjartan frændi minn kom með svo nýjan fisk í morgun, að ég hélt að ég þyrfti sjálf að sjá um að drepa hann. Svo leggur Samherji til fisk, en það veitir ekki af að hafa allar klær úti, því mér skilst að súpukokkar megi eiga von á fleirihundruð og fimmtíu manns í mat.
Logi fór líka í hina árlegu ferð í Rekstrarvörur í dag, (við förum reyndar oft í Rekstrarvörur, en þessi ferð er sérstök), til að kaupa skálar og skeiðar og allt mögulegt, og svo enn stærri pott, en við keyptum í fyrra og hitteðfyrra.
Á fimmtudaginn hefst svo eldamennskan, sem mun standa í tvo daga. Miðað við hvernig Logi lýsti eldamennsku minni um daginn, í þættinum hjá Sillu, mætti ætla að það væri bara eðlilegur tími fyrir eina máltíð á þessu heimili. Hann segir svo margt fallegt um mig, þessi elska...
* * *
Svo smá málfarstuð. Fljótlega ætla ég reyndar að tuða stórkostlega yfir málfari á fréttastofu Útvarps. Til dæmis þarf fréttamaðurinn, sem þar talaði um hreindýrsbelju með kálf, að láta athuga sig. Sá fréttina á vefnum í dag, eftir að mamma benti mér á hana. Ég veit því ekki hver er svo illa haldinn, að hann treystir sér ekki til að beygja hið fallega orð kýr, og skeytir þess vegna þessu ömurlega beljuorði við hreindýrið.
Þetta var útúrdúr. Mér fannst bara ágætt, í kjölfar verslunarmannahelgarinnar, þar sem margt fólk kom víða saman, að skella inn beygingu á orðinu þúsund, í boði Orðabókar Háskólans. Margir fóru flatt á þessu um helgina, í fjölmiðlum var endalaust talað um þúsundir, að ógleymdum öllum þeim tilvikum, þar sem talað var um mikið af fólki. Ég reyni stundum að sjá það fyrir mér, hvort það sjáist meira af fólki þar sem er mikið af því, heldur en þar sem er margt fólk... Hvað veit maður?
miðvikudagur, ágúst 01, 2007
Afreksmaður í íþróttum
laugardagur, júlí 28, 2007
Fjólublátt ljós við barinn
Nei, djók. En Lagavulin á stofuborðinu. Það er óendanlega svalt.
Það er sem sagt villt laugardagskvöld á Dallas. Eða svoleiðis. Við hjónin í rólegheitunum, örverpið (sem líka gengur undir nafninu Frumburðurinn) sofnað, og ég bíð bara eftir að nágrannarnir á ská bak við húsið mitt telji í og hefji partýlæti. Þannig hefur það verið um helgar fram til þessa, en í kvöld virðist tiltölulega rólegt. Kannski eru þeir búnir að fá nóg af partýhaldi, eða þetta voru unglingar að leika sér meðan foreldrarnir rúntuðu um með fellihýsið í góða veðrinu fyrir sunnan. Eða eitthvað.
(Hér kom stutt hlé, sem lesendur tóku ekki eftir, vegna þess að þetta blogg býður ekki upp á rauntímalestur. Hléið var tekið, meðan bloggari andaði í brúnan bréfpoka, til að jafna sig á að hafa skrifað "bíð" með ypsiloni. Sennilega er það merki (ypsilonið) um að ég þurfi að leggja mig. Þangað til hinn daginn.)
Mér dettur reglulega eitthvað stórsniðugt í hug að blogga um, en gleymi því jafnharðan. Þetta er vandamál, sem ég hef átt við að stríða býsna lengi. Einu sinni keypti ég mér svarta bók með teygju, eins og Denni er alltaf með, til þess að halda utan um alla þessa bráðsmellnu hluti og hugmyndir fyrir vinnuna. Gallinn var sá að í staðinn gleymdi ég bara bókinni alltaf einhvers staðar, svo þessi ráðagerð mín féll fljótt og örugglega um sjálfa sig.
Eitt og annað, sem ég man eftir að hafa látið mér detta í hug að skrifa um nýlega, en nenni ekki af því ég er ónytjungur:
- Vitleysingarnir í Björgum Íslandi. Bjarga hverju? Frá hverjum - eða hverju?
- Fleiri hégómanúmer. Mætti til dæmis KA FAN um daginn.
- Skondnar samræður okkar hjóna. Þær koma bara ekki alveg nógu vel út fyrir mig (ég er svona Sideshow Bob) og ég gleymi þeim yfirleitt áður en ég næ að koma þeim frá mér.
- Skemmtilegar tilviljanir, eins og að mæta gamla Peugeotinum mínum á leiðinni frá Flateyri í síðustu viku. Áttaði mig svo á að sennilega væri ég ein um að flokka þetta undir skemmtilega tilviljun.
- Hvað Vestfirðir eru ótrúlega fallegir og gott að gista í Korpudal.
- Beygingar töluorða.
- Trjámorð.
- Upprifjanir á verslunarmannahelgum. Klassískt á þessum tíma árs.
- Frekara blogg um dásemdir Dalvíkur.
- Hálfvitar.
fimmtudagur, júlí 26, 2007
Heima er best
Við komum að sunnan í kvöld og sitjum nú í sófanum, dauðuppgefin af þvælingi og borgarveru. Það skemmtilega við þetta er, að báðum finnst við vera komin heim.
Ég ætla ekki að fara út fyrir Norðlendingafjórðung, nema ég neyðist til þess, næstu tvær vikurnar.
* * *
Ég hef aðeins tuðað yfir því við Dalvíkinga, sem ég hef hitt á förnum vegi, hvað mér finnst fólk hér keyra mikið. Miðað við stærð bæjarins, finnst mér að maður ætti næstum aldrei að þurfa að hreyfa bíl. Ég keyri lítið fyrir sunnan og enn minna hér, því nánast allt sem maður þarf á að halda hversdags, er á næstu grösum.
Ég þurfti að vísu að hringja í Loga fyrir helgi, og biðja hann að sækja mig út í kaupfélag, því ég var orðin of klyfjuð til að komast með pokana heim í einni ferð, en það heyrir nú til undantekninga.
Næstu daga mun ég samt væntanlega fara flestra minna ferða akandi, til að hlífa bæjarbúum við að sjá mig skakklappast um. Mér tókst nefnilega að stíga á nagla í morgun og er eins og hálfviti til gangs, fyrir utan hvað þetta er óþægilegt.
Annars sagði Logi mér um daginn, að hann hefði einhvern tímann lesið skýringu á þessari bílnotkun Dalvíkinga; hún helgaðist að einhverju leyti af skipulagi bæjarins, sem væri ekki sérlega vel fallinn til göngu. Kannski það.
* * *
Auglýsing: Við verðum í útvarpinu á sunnudaginn klukkan þrjú, hjá Silviu Berlusconi, öðru nafni Sigurlaugu Jónasdóttur, útvarpsbarni.
Af hverju er ég annars ekki með svona útvarpsþátt eins og Silla? Útvarp er svo óendanlega sniðugur miðill. Við, sem eigum rætur í útvarpi, vitum að bæði sjónvarpið og internetið er bara bóla.
Sem sagt; Rás eitt, klukkan fimmtán, sunnudag. - Kúnstpása. - Umræðuefnið á að vera matur. Sjáum til.
miðvikudagur, júlí 25, 2007
Allý Bo-tel
Sá sem fattar fyrirsögnina núna, án þess að lesa lengra, á inni kaffibolla hjá mér.
Ég er sem sagt að lesa Harry Potter. Eiginmaðurinn keypti bókina óbeðinn á Akureyri á föstudagskvöldið og kom með hana heim um miðja nótt. Ég þurfti að beita mig hörðu til að byrja ekki strax að lesa, því þá hefði ekki verið neitt afmæli á laugardaginn. Í það minnsta engin veisla.
Er nú að komast á þokkalegt skrið í lestrinum og lofar bókin góðu. Sé samt eftir að hafa ekki lesið sjöttu bókina aftur, eins og ég sá að stúlkan í móttökunni á hinu ágæta byggðasafni Dalvíkinga á Hvoli var að gera í síðustu viku. Eitthvað hefur fennt yfir atburði þeirrar bókar á þesssum tveimur árum frá því ég las hana í bakgarðinum á Ránargötunni.
Ekki fleira að sinni. Tölvan lætur vita að hún sé að verða rafmagnslaus.
Over and out.
föstudagur, júlí 20, 2007
Skortur
Titillinn minnti mig á ljóð, sem heitir Sultur, en það lásum við í íslensku hjá Sverri Páli í menntaskóla. Að óathuguðu máli hefði það getað fjallað um allskonar sultur, en að sjálfsögðu var inntakið allt annað og alvarlegra, en mér finnst samt tilhugsunin alltaf svolítið fyndin. Jarðarberja-sultur. (Enda sjaldan verið svöng lengur, en sem nemur tímanum sem það tekur magann að gefa heilanum til kynna að hann sé tómur. Maginn, altso.)
Skorturinn, sem ég var að hugsa um snýst reyndar um mat. Sennilega eru fáir að hugsa um næstu kvöldmáltíð klukkan tvö að nóttu, en ég er að reyna að finna mig í húsmóðurhlutverkinu. Á morgun stendur til að baka í formið góða sem fannst á Akureyri og skella í nokkrar kökur aðrar, en maðurinn lifir ekki á brauði einu saman og þá alls ekki á kökum.
Þar kemur að skortinum. Mig langaði nefnilega í fisk. Ég veit ekki alveg hvernig staðan er á fiskúrvalinu í kaupfélaginu hér (sem nú heitir Samkaup, en ég kalla aldrei neitt annað en kuffélajið), en rámar í ágætis kjötborð þar. Hér er engin fiskbúð. Og ekki heldur á Akureyri, ef út í það er farið. Þar var slík verslun lengi vel, en hún lagði upp laupana fyrir nokkrum árum, gafst upp í samkeppninni við fiskborð stórmarkaðanna. Mér finnst það galli, því það er gaman að versla í fiskbúðum, í það minnsta ef maður er með fagmann bak við búðarborðið og góða fiskilykt í nefinu.
Í Eyjafirði er því raunverulegur skortur á fiskbúðum. Ég velti fyrir mér hvort enn sé fiskbúð á Húsavík? Eða hvort helstu sjávarpláss landsins eigi það sameiginlegt að vera fiskbúðarlaus?
Verkefni morgundagsins, fyrir utan kökubaksturinn og mögulega heimsókn með tengdó á byggðasafnið á Hvoli, er því að rannsaka fisklager kaupfélagsins. Annars verð ég bara að senda frumburðinn, veiðikló heimilisins, niður á bryggju með stöng.
fimmtudagur, júlí 19, 2007
Ég er...
...andleg eyðimörk þessa dagana, eins og sjá má á blogginu. Hér er býsna gestkvæmt og skapandi störf eru aðallega unnin í eldhúsinu.
Framundan er árs afmæli yngsta barnsins og ferðinni heitið til Akureyrar að kaupa bangsaform.
Fleira er ekki í fréttum. Held ég. Annars gæti það alveg verið, ef hausinn á mér væri ekki teflonhúðaður af ferðalögum og svefnleysi.
P.s. Ef einhver hefur áhuga á að spila golf við kjöraðstæður ætti hann að skella sér á völlinn í Svarfaðardal núna. Hér er stafalogn, sautján stiga hiti og sólarlaust. Golfveður eins og best verður á kosið.
laugardagur, júlí 14, 2007
Úrvals þjónusta við lesendur
Það er ekki oft sem ég græt af hlátri yfir bloggfærslum annarra. (Já, lesið milli línanna. Annarra.) Það gerði ég nú samt áðan, sitjandi í sófanum í sómabænum Dalvík, enda ástæða til. Datt inn á blogg manns að nafni Trausti, í gegnum Ívar Pál, sem heldur úti einu súrasta, en jafnframt fyndnasta, bloggi landsins og hefur gert lengi af mikilli staðfestu. Ég hafði til dæmis ekki gert mér grein fyrir því, fyrr en nú nýlega, hvað fagfjárfestir er hrikalega fyndið orð.
Trausti þessi ákvað sem sagt að fara yfir og reyna að skýra ýmis leitarorð, sem hefðu leitt fólk inn á bloggið hjá honum. Ég las listann yfir fyrir Loga, og þurfti nokkrar tilraunir til að komast í gegnum eftirfarandi setningu: "vökvi í höfði - Nú er ég aftur tekinn í bólinu. Það er samt vafalaust mjög vont og óæskilegt að hafa vökva í höfði. Leitaðu tafarlaust til læknis."
Óútskýranlega fyndið.
föstudagur, júlí 13, 2007
S. Paug
Til er hópur fólks, sem treystir sér ekki til að læra venjuleg bílnúmer, og merkir því bílana sína sérstaklega. Þá er ég ekki að tala um húsbílaeigendur, heldur fólk með hégómanúmer.
Opinberlega heita þau víst einkanúmer, en Kaninn kallar þau vanity plates, sem er skemmtilega gott heiti og þjált í þýðingu.
Þessar hégómaplötur eru vissulega afar misjafnar. Sumar eru þó þannig að maður brosir út í annað, stundum leynir sér ekki að undir stýri er mikill húmoristi. Sá sem á númerið 313 er t.d. alls ekki svo galinn.
Ég hef samt sjaldan hlegið eins mikið og fyrir nokkrum dögum, þegar fram hjá mér keyrði bíll, sennilega í eigu manns, sem gæti heitið Guðmundur Örn, Gunnar Örn eða jafnvel Guðbjartur Örn, svo nokkrar möguleikar séu nefndir. Allavega virðist hann heita of löngu nafni fyrir svona hégómaplötu, og hefur valið styttinguna G Örn.
Þangað til annað kemur í ljós, leyfi ég mér að ætla að honum finnist þetta jafn fyndið og mér.
mánudagur, júlí 09, 2007
Norðvestan 1 m/s. Hiti 6 stig.
Fyrirsögnin skal lesin ofan í góða könnu. Þannig hljómar hún nákvæmlega eins og veðurfregnir frá Veðurstofu Íslands.
Þær ku víst vera lesnar með erlendum hreimi þessa dagana, sem hefur truflað suma dygga veðurfregnahlustendur svo mikið, að einhver kona sá sig knúna í Mogganum í síðustu viku til að taka upp hanskann fyrir útlenska veðurfræðinginn (sem talar að sögn alveg ljómandi íslensku).
Meira hvað fólk getur látið trufla sig. (Segir innanhússmeistarinn í tuði, fullur vandlætingar.)
Annars er fyrirsögnin tengd veðrinu hér út með firði Eyja. Hér vorar ágætlega.
* * *
Við erum sem sagt komin norður. Fengum vinkonu okkar til að búa í íbúðinni okkar fyrir sunnan, til að passa húsið og kettina. Securitas tekur víst ekki að sér að gefa köttum, þótt starfsmennirnir þar séu liðlegir.
* * *
Glöggir lesendur taka ef til vill eftir því að þetta er skrifað óvenju árla morguns. Hér er friðsældin svo mikil, að maður vaknar með fuglunum. Þeir eru helsta truflunin á Dalvík, ef truflun skyldi kalla.
þriðjudagur, júlí 03, 2007
Stásskona
Þórdís spyr um íslenskt orð yfir trophy wife. Bein þýðing væri væntanlega sigurverðlaunaeiginkona. Það er frekar óþjált, svo ég legg til orðið stásskona.
* * *
Tilefni pælinga Þórdísar var skilnaður Salmans Rushdie og eiginkonu hans. Ef maður hugsar um þetta fyrirbæri, kemur fljótlega upp í hugann að svona stásskonur virðast tíðkast víða í íþróttaheiminum.
Oft virðist fólk spila í sömu deild, auðvitað eru margir íþróttamenn dáindisfallegir á að líta og vel á sig komnir. Kylfingar eru þó sennilega sá hópur íþróttamanna, sem bera það minnst með sér að vera einmitt það; íþróttamenn.
Þeim hefur þó mörgum hverjum, eins og kollegum þeirra í öðrum greinum, heppnast að ná sér í ansi lögulegar eiginkonur, gjarnan í yngri kantinum, sem eru til í að deila með þeim vinningsfénu.
Þetta eru örugglega ágætismenn, en ég er ekki viss um að allar skutlurnar, sem eru með þeim núna, hefðu séð í gegnum æpandi bolabrúnkuna, hvítu höndina og húfufarið, sem einkennir flesta langt leidda golfara. Og í tilfelli sumra; ístruna, rauða hárið og kartöflunefið.
En svo verður maður alltaf að muna að maður kann ekki söguna alla og kannski er þetta betra svona, að fólk nái að líta framhjá yfirborðinu á hinn sanna innri mann...
*Myndin er af Melaniu Knauss, nýjustu eiginkonu Donalds Trump. Hann á golfvelli.
mánudagur, júlí 02, 2007
Ljónið á veginum
Ég nefndi það um daginn að ég gæti hæglega fallið í bíladellugryfjuna. Ég hefði sennilega átt að segja að ég væri með óvirka bíladellu. Hún fær yfirleitt ekki að blómstra, en í gærkvöldi náði hún sér á strik.
Ég fór að skoða Peugeotsíðuna og komst að því að nýr bíll, sem heitir Peugeot 308 er að koma á markað. Mér finnst hann æði og langar alveg að eignast þannig bíl.
Við áttum Peugeot 307 station, með glerþaki, sem er ótrúlega skemmtilegur fídús og virðist hafa orðið svo vinsæll hjá framleiðendum bílanna að flestar nýju týpurnar líta út fyrir að vera með glerþaki.
Peugeot og ég höfum átt samleið óslitið í ellefu ár. - Ég er sem sagt með netta Peugeotdellu. Hún byrjaði þegar ég var ólétt af syni mínum. Þá vantaði mig hentugan fjölskyldubíl, sem myndi ekki fara með fjárhaginn hjá rúmlega tvítugum námsmanni í leiguíbúð. Ég keypti þá ótrúlega lítið keyrðan, átta ára gamlan Peugeot 405, dekurbíl, sem gamall maður á Akureyri hafði átt.
Hann átti ég í sjö ár við mikla ánægju okkar beggja, mín og bílsins, en síðustu tvö árin fékk hann félagsskap á stæðinu, því þá höfðum við keypt næstu kynslóð (eða þarnæstu), Peugeot 406, árgerð 2000. Yndislegt að keyra hann og þeir sem hafa prófað þekkja Peugeotfjöðrunina, sem er ótrúlega mjúk og ég held að sé alveg sérstakt franskt fyrirbæri.
Síðan eignaðist ég Peugeot 206, sem var alltaf í geysilegu uppáhaldi hjá syni mínum, en var seldur þegar þurfti að kaupa fullorðinn bíl fyrir alla fjölskylduna. Þá varð 307 með aukasæti fyrir valinu. Mjög sniðugt; ekki risabíll, en sæti fyrir alla.
307 varð að víkja fyrir amerísku rútunni sem við ökum um á núna (aðallega Logi þó), Dodge, með sætum fyrir sjö og stóru farangursrými, þannig að þótt í honum sitji sjö, er samt pláss fyrir vagninn aftan við sætinn og meira til. Hann er líka með geymslurými ofan í gólfinu, sem rúmar helling. Kaninn kann svo sem alveg að smíða góða fjölskyldubíla.
Þegar ég var ólétt af Brynhildi keyptum við svo annan Peugeot 206, en station í þetta sinn, sem er smábíll, en samt með nógu plássi fyrir barnavagninn.
Ég prófaði líka Peugeot 1007, sem er enn meiri smábíll, með rennihurðum, en það er algjör snilld í borg, þar sem öll bílastæði virðast vera miðuð við Austin Mini. Hann var bara ekki nógu stór fyrir mig, meðan ég er í þessari barnavagnaútgerð.
Nú á ég nýjan draumabíl (fyrir utan nýja 308, 407 og 607, að ógleymdum jeppanum, 4007, sem er á leiðinni), en það er þessi hér: Peugeot 207 station. Mér skilst að hann sé ekki kominn til landsins enn, en mig langar...
Frúin myndi vissulega hlæja í betri bíl.
laugardagur, júní 30, 2007
Keppni
Við Brynhildur fórum í sund í gær. Þar fór fram brúnkukeppni utanhúss með og án atrennu. Skemmst er frá því að segja að ég náði ekki lágmarkinu og var dæmd úr leik í búningsklefanum.
* * *
Ég ákvað sem sagt að nota góða veðrið í gær. Ég hef svo sem gert eitthvað af því flesta daga, þrátt fyrir væl í gær um samviskubit yfir að gera ekki nóg af því. Það sést í það minnsta á heimilinu.
föstudagur, júní 29, 2007
Góðviðrissamviskubit
Ég man ekki jafnmarga góðviðrisdaga í einu í borginni, eins og síðustu vikur. Vissulega er ekkert Spánarveður hér, en það er sól upp á næstum hvern dag, og hiti oft um og yfir fimmtán stig, sem ég held að hljóti að teljast ágætt á íslenskan mælikvarða.
Það sem gerist eftir nokkra svona daga, er að heimili manns hverfur smátt og smátt undir hrúgur af óhreinum þvotti, ófrágengnum hlutum og aðra óreiðu. Maður er nefnilega svo mikill Íslendingur, og samkvæmt óopinberum reglum íslenska lýðveldisins, ber manni skylda til að "nota góða veðrið".
Það þýðir að maður á að vera úti, helst nógu léttklæddur til að taka lit sem víðast á líkamanum (skítt með allar rannsóknir á sól og húðkrabbameini), og alls ekki elda inni.
Ég hef ekki staðið mig nógu vel í að fara eftir þessum reglum, og afleiðingin er sú að ég burðast með samviskubit yfir að vera að sóa þessum fínu dögum og varð bara fegin á miðvikudaginn þegar ég vaknaði og leit út um gluggann á sólarlausan Vesturbæ.
Þetta er sem sagt góðviðrissamviskubit. Ég er jafnvel að hugsa um að láta undan því og fara með Brynhildi í sund.
miðvikudagur, júní 27, 2007
Óvísindaleg könnun á bílaeign
Á leið heim úr Garðabænum áðan, fórum við að tala um bílaeign borgarbúa. Hún virkar stundum eins og næstum allir afli nokkurra milljóna á mánuði, og við ákváðum að gera afar óvísindalega könnun.
Frá Öskjuhlíðinni og heim töldum við jeppa og komumst í rúmlega fimmtíu. Þá erum við ekki að tala um jepplinga. Auðvitað voru þeir misgamlir og misdýrir, en að minnsta kosti fjórir þeirra voru týpur sem kosta um fimmtán milljónir.
Ég get ekki að því gert að undanfarið hef ég fengið dálitla eitístilfinningu. Upparnir eru komnir aftur, það eru allir að meika það, verða ríkir, frægir, æðislegir og eiga rosalega mikið dót.
Auðvitað er maður ekki ósnortinn af kapphlaupinu, og ég veit að ég gæti alveg sleppt mér í góða bíladellu. Málið er bara að mér finnst maður þurfa að hafa efni á að eiga svona glæsikerrur og ég dreg einhvern veginn í efa að allir þeir, sem keyra á dýrustu bílunum séu svo fjáðir.
Stundum tala menn um plebba og bílaeign í sömu andrá, en mér finnst ekkert plebbalegt að eiga flottan bíl. Það er bara plebbalegt ef maður hefur ekki efni á því, en heldur að maður sé ekki maður með mönnum að aka á venjulegum fjölskyldubíl.
Kannski verð ég einhvern tímann fín frú á enn fínni bíl, sem kostar á við góða raðhúsaíbúð á Akureyri. Það gerist þó sennilega ekki fyrr en ég hef efni á að kveikja upp í arninum, sem ég mun þá líka hafa komið fyrir í húsinu á Dalvík, með fimmþúsundköllum.
þriðjudagur, júní 26, 2007
Nokkur skilyrði til að verðskulda frægð
Mér fannst góður pistill Gerðar Kristnýjar á baksíðu Fréttablaðsins í gær. Hann má finna hér: http://visir.is/article/20070625/SKODANIR06/106250123
Hún skrifar sem sagt um hvernig talað er um ríku og frægu stelpurnar, sem eiga víst ekki að vera frægar fyrir neitt, eins og Paris Hilton og svo Önnu Nicole Smith. Ég veit ekki hversu oft ég hef hugsað einmitt þetta sem Gerður skrifar; hvers vegna fólk leyfir sér að tala svona um þessar konur.
Ég er enginn aðdáandi þeirra tveggja, Parisar eða Önnu Nicole, en þær hafa ekki truflað mig neitt í gegnum tíðina, né heldur Britney Spears. Britney er að vísu í svolítið öðrum flokki en hinar tvær, en líklega hafa þær þrjár átt fleiri fyrirsagnir í slúðurblöðum hins vestræna heims síðasta árið, en flestir hinna frægu ná út lífið.
En að punktinum, að vera frægur fyrir ekki neitt, sem oftast er haldið á lofti um Önnu og Paris. Hvað er eiginlega átt við? Skiptir svo miklu fyrir hvað fólk er frægt? Eins og til dæmis má lesa í pistli Gerðar, er Paris erfingi einnar stærstu hótelkeðju heims, með henni voru gerðar nokkrar raunveruleikaþáttaraðir, hún hefur gefið út plötu og verið fyrirsæta.
Þetta hangir sjálfsagt að einhverju leyti á þeirri spýtunni að hún var ekki óþekkt áður en allt þetta kom til, fyrir utan væntanlegan arf, en hún hefur í það minnsta sýnt að fólk hefur áhuga á því sem hún gerir, þannig að þeir sem bjuggu til þættina, gáfu út plötuna og fengu hana til að sýna föt fyrir sig, hafa talið það einhvers virði að leggja henni lið eða fá hana til að vinna fyrir sig en ekki einhvern annan.
Ég ætla ekki að detta í neinn sérstakan kvenfyrirlitningarmóðgunarham, en ég man í fljótu bragði ekki eftir mörgum karlkyns, sem hafa fengið þennan frægurfyrirekkineittogþarafleiðandiheimskljóskastimpil (nema ef vera kynni K-Fed sjálfum, eiginmanni Britneyjar, en samt ekki).
Það leiðir hugann að því hvort til séu einhver skilyrði fyrir því að verðskulda frægð, eða eitthvað sem ber að forðast til að fólk telji mann ekki hafa hlotið frægðina fyrir ekki neitt.
1) Það er betra að vera ómyndarlegur, jafnvel ljótur, eða í það minnsta þannig að því sé vart viðbjargandi með öllum mögulegum fegrunarráðum. (Hin langleita Paris Hilton er held ég engin sérstök fegurðardís, en það gleymist því hún er alltaf ákaflega vel tilhöfð.)
2) Ómæld fjárráð eru óæskileg, sérstaklega ef viðkomandi hefur ekki unnið til þeirra með eigin höndum eða hugviti.
3) Mikil athygli er ekki af hinu góða, en þar sem hún er í raun óhjákvæmilegur fylgifiskur þess að verða frægur, er þetta skilyrði ákaflega erfitt viðureignar.
4) Að vera kvenkyns er sérstakur akkilesarhæll.
Það fer sem sagt frekar í taugarnar á mér, þegar fólk segir í umvöndunartón: Hvað er eiginlega verið að segja fréttir af þessum konum, sem eru ekki frægar fyrir neitt nema að vera frægar?
Það leiðir líka hugann að hópi fólks, sem er ekki frægur fyrir neitt nema að vera einhvers staðar í erfðaröð krúnunnar í nokkrum Evrópuríkjum, en marga virðist þyrsta ákaflega í fréttir af, án þess að það sé álitið neitt athugavert. Guð veit að það fólk má hvergi vera án þess að einhver papparass birtist með myndavél og það er réttlætt með því að þetta séu opinberar persónur (sem þó gerðu ekkert af sér nema fæðast inn í ákveðna fjölskyldu) og fólk eigi rétt á að fylgjast með því og athöfnum þess.
Margir þekkja Karólínudóminn, en hann var kveðinn upp eftir að Karólína prinsessa af Mónakó kærði þýsk blöð fyrir að hundelta sig og fjölskyldu sína. Hann segir að fólk í opinberri stöðu eins og hún, eigi víst rétt á friðhelgi einkalífs eins og aðrir, þrátt fyrir fréttaþorsta einhvers hluta almennings.
Þá er maður reyndar kominn út í svolítið aðra sálma en pælingar um það hvers vegna sumir eru taldir frægir fyrir ekki neitt, og þó: Þetta hnígur þó að þeim brunni, að slúðurblöð og fleiri virðulegri miðlar, segja fréttir af þeim, sem fólk vill helst lesa, heyra og sjá fjallað um.
Fyrst sagðar eru svona margar fréttir af kóngafólki, erfingjum hundgamalla dauðra kalla og hótelvelda, hlýtur að vera áhugi fyrir þeim. Jafnvel hjá þeim sem hneykslast yfir fréttaflutningnum af þessu einskisnýta þotuliði, sem eru svo margir að varla ætti nokkur að vera eftir til að koma þeim alltaf í efsta sæti yfir mest lesna efnið á Mbl.is.
Og skiptir þá einhverju máli fyrir hvað þetta fólk varð frægt í upphafi?
* * *
Fyrst minnst er á Moggann (og þetta á reyndar við um fleiri íslensk blöð): Af hverju er í lagi að skrifa og birta alls konar hluti um útlendinga, flugufregnir úr gulu pressunni, í jafn virðulegu blað, sem myndi aldrei láta hanka sig á að skrifa þannig um Íslendinga?
mánudagur, júní 25, 2007
Um helgina...
...hef ég gengið átján holur á Jaðri
...skroppið til Dalvíkur
...smíðað sólpall
...og borðað of mikið.
Þetta síðasta er reyndar fastur liður á Norðurlandi. Hér er enn veitt eins og maður sé týndi sonurinn, nýkominn inn úr dyrunum.
mánudagur, júní 18, 2007
Aftursæti og káfað á Helga
Ég heyrði í íþróttafréttum á RÚV í kvöld að Sheffield United vill fá aftursæti í efstu deild.
Sérkennilegt.
* * *
Svo las ég í Blaðinu um helgina umfjöllun um athyglisverð atvik í sjónvarpi. Finnst eins og þetta sé alls ekki í fyrsta sinn, sem ég les eitthvað slíkt, eða þá sögur af fólki í útvarpi, sem gleymir að loka fyrir hljóðnemann og syngur, hringir í makann eða eitthvað þaðan af óheppilegra í beinni.
Ég man aldrei neitt svona, og dreg þar af leiðandi þá ályktun að allar mínar útsendingar hafi verið sléttar og felldar. Minniháttar hlátursköst og svoleiðis vitleysa telst ekki með.
Ég á þó eina eftirminnilega útsendingu og það er ekki mér að kenna, heldur Helga Seljan.
Þegar hann byrjaði með okkur Ingu í Íslandi í dag, var hann rokkari að austan, sem reykti pakka á dag og hafði örugglega ekki farið í klippingu síðan mamma hans skikkaði hann í jólaskveringuna. Þetta var í febrúar.
Í mars hafði hann komið sér upp klippingu sem hvaða hnakki gat verið stoltur af, hresst upp á húðlitinn, farið inn í líkamsræktarsal í fyrsta sinn á ævinni, í Boot Camp (og ælt reyndar, enda píndum við hann í þetta), tekið fataskápinn í gegn og síðast en ekki síst átt þessa setningu: "Stelpur, sáuð þið í Opruh í gær, að flestar konur nota brjóstahaldara í vitlausri stærð?"
Jamm. En þetta var útúrdúr, en þó ekki, því við hefðum átt að geta sagt okkur það strax í fyrstu útsendingu Helga að hann væri svolítið hégómlegur og þessi breyting væri yfirvofandi.
Við Helgi settumst inn í sett, komum okkur fyrir og svo fór stefið í loftið, ég bauð gott kvöld og horfði í myndavélina. Helgi aftur á móti pírði augun út í loftið, leit svo í myndavélina við hliðina og talaði bara í hana.
Ég reyndi eins og ég gat að fá hann til að líta í rétta vél, potaði meira að segja nokkrum sinnum í lærið á honum til að ná athygli, sem ég sá síðan þegar ég horfði á þáttinn að leit meira út eins og ég væri massívt að káfa á nýliðanum. Frábært.
Ég sveiflaðist milli þess að reyna að redda þessu með því að kóa með Helga og horfa í vitlausa vél, eða reyna sjálf að líta ekki út eins og vitleysingur og horfa í rétta átt, sem varð svo niðurstaðan, því pródúsentinn hélt bara sínu striki.
Ástæðan fyrir þessu var sem sagt sú að Helgi þurfti að nota gleraugu, en var alltof mikill töffari til þess og hafði aldrei dottið í hug að kaupa sér linsur. Hann komst að því þarna, að hann sá ekki nokkurn skapaðan hlut, og alls ekki á textavélina á myndavélinni sem við áttum að horfa í.
Helgi dó ekki ráðalaus, og ákvað þess vegna að horfa bara í myndavélina, sem hann sæi textann á, meðan ég í vonlausri baráttu við að snúa honum, káfaði á lærinu á Helga.
Hann fór fljótlega eftir þetta og keypti sér linsur, en þá tók við nýtt vandamál. Helgi reyndist svo mikil kveif, að hann gat ekki sett linsurnar í augun á sér sjálfur, og þegar Kata hans, sem þá var skrifta, en er nú einn liðsmanna Íslands í dag, var ekki á vakt til að gera það, þurftum við Inga að sjá um það. Svipurinn á gestunum, þegar við stóðum yfir Helga í sminkstólnum að troða í hann linsunum fyrir útsendingu, var stundum soltið spes.
En svona er þetta, aldrei dauður dagur með Helga.
* * *
Ég kann líka eina ágæta af Sölva og textavél. Sjáum til hvort ég græði eitthvað á að segja hana ekki...
sunnudagur, júní 17, 2007
Jújú, 17. júní...
...er svo sem ágætur, þannig. Sérstaklega þegar hann lendir á virkum degi. Mér finnst hálfgert svindl að hafa 17. júní á laugardegi eða sunnudegi, en við því er lítið að gera.
Mér finnst miðbærinn líka ágætur, það er gaman að rölta þar um, fá sér kaffi, skoða í búðarglugga og fólk.
Þetta tvennt, miðbærinn og 17. júní fer aftur á móti ekki vel saman. Það þarfnast ekki frekari útskýringa.
* * *
Oft langar mig til að hafa einhvers konar Central Park hér í nágrenninu, þar sem ég gæti farið í göngutúr með vagninn, sest niður á kaffihúsi og lesið, og leyft krökkunum að leika sér á meðan.
Hljómskálagarðurinn er sennilega það sem kemst næst því að vera okkar Miðgarður, eða kannski Laugardalurinn, með húsdýra- og fjölskyldugarðinum. Það segir sig sjálft að það eru fjölskyldur sem eru til sýnis í þeim síðarnefnda.
Laugardalurinn er ekki í göngufæri fyrir mig og því stendur Hljómskálagarðurinn eftir. Hann laðar mig ekki að sér einhverra hluta vegna, enda er fátt við að vera þar.
Er ekki kominn tími til að hressa upp á Hljómskálagarðinn?
* * *
Og af foreldrum og börnum: Nú er fimmtán, sextán stiga hiti í götunni hjá mér. Já, veðurfarið hér er nánast norðlenskt. Um daginn var eins veður og við stjúpdóttir mín fengum okkur göngutúr ásamt Brynhildi út í ísbúð. Við vorum allar léttklæddar eins og lög gera ráð fyrir.
Fyrir utan ísbúðina var kona með barn, á að giska tæpra tveggja ára, sem var að verða vitlaust. Hún skildi ekkert í ólátunum. Ef ég hefði verið þetta barn, sem var með þykka prjónahúfu, í síðbuxum, flíspeysu sem var rennd upp í háls og dúnvesti þar utan yfir, hefði ég líka orðið vitlaus.
Mamman var í þunnum bol og yfirhafnarlaus, og væsti ekki um hana.
Kannski var þetta bara almenn óþekkt, en ég hugsa að klæðaburðurinn hafi ekki bætt úr skák. Mig langaði mikið að benda henni á það sem mér fannst augljóst, að barnið væri að kafna úr hita, en gerði það ekki. Síðast þegar ég benti móður á eitthvað sem mér fannst stappa nærri vanrækslu, fékk ég engar sérstakar undirtektir.
Það var á Kristnitökuhátíð á Þingvöllum, þar sem sólin skein sem aldrei fyrr í 23 stiga hita og allt brann sem ekki var smurt með sólvörn 15. Konan var með lítið berleggjað barn í kerru, sem var orðið á litinn eins og Bónusgrísinn, en gerði enga tilraun til að hylja það. Ég var búin að fylgjast með þeim í smá tíma, og stóðst svo ekki mátið og nefndi brunann á barninu . Sagði henni að hún gæti fengið sólvörn og brunakrem í þjónustutjaldi sem var rétt hjá, en nei, henni fannst þetta óþarfa afskiptasemi.
Ég veit að einhverjum finnst þetta örugglega of djúpt í árinni tekið, en... Stundum eru foreldrar fífl.
laugardagur, júní 16, 2007
Tvífarakeppni
Ég er að hugsa um að starta trendi: Tvífarakeppni katta. Á göngu okkar um bæinn í gær, rákumst við til dæmis á þennan kött, sem er sláandi líkur Snata okkar. Aðeins stærri, sennilega svipaður og Snati væri, hefði hann ekki orðið fyrir áfalli í bernsku.
Á hann vantar að vísu fegurðarblettinn sem Snati er með við nefið, en vá; við héldum fyrst að þetta væri Snati, sem reyndar eltir okkur oft í göngutúrum.
Þeir þurfa þó helst að vera styttri en niður í bæ. Þangað fórum við til að kaupa mynd hjá Ara stórgrósser í Fótógrafí. Mér finnst reyndar að búðin hefði átt að heita Ljósmyndaverslun Ara Sigvaldasonar. Það hefði passað vel við búðina og Ara, sem á það til að vera ekki beint fulltrúi ungu kynslóðarinnar.
Þetta er mynd af myndinni sem við keyptum, tekin daginn eftir Dalvíkurskjálftann 1934. Hún verður að sjálfsögðu hengd upp á viðhafnarstað á Dalvík.
Í Fótógrafí hittum við Björn Inga Hilmarsson Daníelssonar frá Dalvík, ásamt systur, sem býr þar enn. Amma þeirra og afi leigðu víst neðri hæðina af ömmu minni og afa á Karlsbrautinni, meðan þau voru að byggja. Svona er heimurinn lítill. Eða Dalvík, allavega.
Brúna fólkið
Ég er dottin í Agöthu Christie. Það gerist öðru hverju. Þótt formúlan geti ært óstöðugan og biðin eftir hinu óumflýjanlega morði geti orðið fulllöng, eru þetta skemmtilegar bækur. Uppáhaldið mitt er spjátrungurinn Poirot.
Bækurnar, sem ég hef verið að lesa núna, eru frekar fyndnar, því þær eru skrifaðar áður en kynþáttafordómar voru fundnir upp, eða í það minnsta áður en það að telja brúna fólkið vitleysinga og ónytjunga, taldist óviðeigandi.
Sögupersónurnar, sem ferðast um í útlöndum á fyrsta farrými, býsnast yfir Aröbum, Indverjum, svertingjum og helst öllum sem eru eitthvað litaðir. Svo er gert í því að sýna fyrirlitningu Breta á útlendingum yfirhöfuð, jafnvel hinum bleiknefjaða Poirot, en sennilega hefur það átt að endurspegla víðsýni höfundar, að reka augun í það að þar væri fulllangt gengið.
Auðvitað er ég ekki sammála þessum persónum Agöthu Christie, en það er samt ótrúlega hressandi að lesa texta, sem er svo gjörsamlega laus við pólitískan rétttrúnað. Þetta er svolítið eins og Tinnabækurnar.
Enid Blyton átti víst líka að hafa verið einhver meiriháttar rasisti og geysilega óholl aflestrar fyrir óharðnaðar sálir. Ég las allt sem ég náði í eftir hana, sem barn, og held ég hafi ekki beðið neinn sérstakan skaða. Ég skildi eiginlega miklu síður, þegar þessi umræða kom upp, hvers vegna enginn syrgði hlutskipti aumingja Önnu (í hvaða bókaflokki eftir Blyton sem var), sem var hin hrædda og húslega stúlka holdi klædd. Hefði það ekki verið ástæða til að fá feminískt kast?
* * *
Ég minntist einhvern tímann á Orhan Pamuk, og bókina hans um svörtu bókina, The Black Book. Hana keypti ég í mars og byrjaði að lesa skömmu síðar. Hún hefur hlotið þau örlög að verða bók þessa árs. Ekki vegna þess að mér finnist hún svo frábær (hún er reyndar ágæt), heldur vegna þess að með sama áframhaldi klára ég hana um jól.
föstudagur, júní 15, 2007
Jæja...
...ég er sem sagt flutt, í það minnsta þangað til ákveðnum hlutum verður kippt í lag á Vísisblogginu. Ég er bara svo mikið kontrólfrík að ég verð að hafa fullkomna stjórn á mínu eigin bloggi, og það þýðir miklu fleiri fídúsa en Vísisbloggið býður upp á sem stendur.
Ég kann vel við WordPresskerfið, en það er erfitt að kenna gömlum hundi að sitja. Kannski þykir einhverjum það fánýtt, en það fór óstjórnlega í taugarnar á mér að vita ekki hver væri ástæðan, þegar teljarinn tók á rás; hver væri að linka á mann og í hvaða samhengi.
Ég bið bara mitt fólk á Vísi velvirðingar á liðhlaupinu, en sný aftur þegar ég fæ að ráða öllu sem mér dettur í hug og meiru til á blogginu mínu þar.
* * *
Kannski hefur einhver misskilið linkinn á rugluðustu keppni landsins, á ernae.blogspot.com (finn ekki hvernig ég bý til krækju á Blogger með safarivafra... abbsaggið). Ég kann vel að meta svona nördakeppni, enda áhugamaður um spurningaleiki hvers konar.
Það sem mér finnst magnað er að muna öll þessi smáatriði úr Ísfólksbókunum. Bækurnar eru jú 47 og persónurnar í þeim skipta örugglega hundruðum, þótt aðalpersónurnar séu ekki svo margar. Einhvern tímann kunni ég ættartréð utan að (já Erna, aðfasisti), en ég bendi á að ég kunni líka ættartré Njálu og öll möguleg tengsl sögupersóna þegar ég var sautján.
Nú gæti ég ekki hóstað upp einum tíunda af þessu þótt ég ætti að bjarga lífi mínu.
Ég vona að ég fari aftur að muna hluti þegar ég verð búin að koma upp börnunum, og hef meiri tíma til að nördast. Akkúrat núna er ég bara með valkvætt minni, og það er alls ekki öruggt að það sem ég man í dag hafi ég munað í gær, hvað þá að það verði finnanlegt í hausnum á mér á morgun.
Minnið er skrýtin skepna.
Annars er á döfinni að grafa upp Ísfólksbækurnar. Kannski ég geti þá verið með í þessari keppni.
* * *
Var að hugsa um þessar bækur í gær, meðan ég þrammaði um Vesturbæinn með Brynhildi á bakinu. Ég held að sú fyrsta hafi komið út 1983. Þá var ég níu ára. Til allrar guðs lukku byrjaði ég ekki að lesa þær þá, heldur nokkrum árum síðar, en var samt algjör kjúklingur þegar ég las fyrstu bókina.
Það var að mig minnir bók númer fimm í bókaflokknum, sem ég man ekki hvað heitir en var um einhvern lamaðan og getulausan afkomanda Silju og Þengils. (Já, afsakið, ég man ekki hvað hann heitir.) Hann hélt að hann væri hommi, en komst svo að því að það var algjör misskilningur. Hann var bara með byssukúlu í hryggnum eða eitthvað álíka. Ætli Gunnar í Krossinum ætti ekki að íhuga að kaupa sér málmleitartæki?
Ástæðan fyrir því að ég þakka guði og lukkunni fyrir að hafa ekki dottið í þessar bækur níu ára, er að þær eru varla við barna hæfi. Dónalegu senurnar eru ófáar, sérstaklega í fyrstu bókunum og mig minnir meira að segja að Margit Sandemo hafi sagt frá því einhvers staðar, að konum, sem áttu í einhverjum vandræðum á beðmálssviðinu, hafi verið ráðlagt að lesa þessar bækur.
Ég sem sagt las allar bækurnar 47 og held ég hafi tekið að minnsta kosti tvær umferðir á þeim. Það er þó orðið langt síðan ég las þær síðast. Þegar síðasta bókin kom út, fylgdi annar bókaflokkur, um Galdrahöfðingjann, sem ég man ekki hvort ég átti allan, og svo bókaflokkur sem hét Ríki ljóssins, eða var þetta sami flokkurinn? Ha, Erna?
Ég missti áhugann á honum, þegar hann leystist upp í eitthvert rugl, í þessu ágæta Ríki ljóssins, og allt í einu var farið að tína inn gamla félaga úr Ísfólksbókunum. Sá þrettándi varð full þunnur fyrir mig.
Velti því samt fyrir mér hvort þessi bókaflokkur hafi átt einhvern endi, eða orðið gjaldþroti útgáfunnar að bráð. Spyr ég nú enn, Erna... Eða einhver, sem er mér vitrari um þessi mál.
föstudagur, mars 23, 2007
Vegvísir
Mummi (skyldi það vera minn gamli bekkjarbróðir?) kommentar á síðustu færslu, og segist bjóða mig velkomna aftur þegar næsta færsla komi. Þetta er þá næsta færsla, aðallega ætluð til þess að tilkynna flutning. Ég á nú heima á blogg.visir.is/svanhildur - ég veit, ótrúlega eitthvað níutíuogeitthvað að vera með skástriksurl, en svona er þetta bara.
Ég á sem sagt blogg á Vísisvefnum, en þar sem það birtist reglulega á forsíðu vefjarins, er það öllu flatara og meira óspennandi en gamla Ljósvakalæðan. Í það minnsta vona ég að þessi forsíðubirting sé ástæðan, en ekki að ég sé orðin svona flöt og óspennandi...
sunnudagur, febrúar 18, 2007
Aftur!
Andskotinn! Blogger át aftur færslu hjá mér og þetta recover post drasl virkar ekki. Arrg.
Innihaldið var svo sem ekki merkilegt - aðallega upprifjun á öllu því sem Svenni Guðmars og Þóra eiga sameiginlegt, eins og afmælisdagurinn í dag, að hafa bæði átt kött sem heitir Kisa, hafa unnið saman og þrátt fyrir að hafa farið út í heim í nám, enduðu þau aftur á sama vinnustað, þó ekki þeim sama og síðast.
Svo þurfti ég að tuða yfir hinum ofurfullkomna bökunarofni mínum, sem þrátt fyrir að vera bæði rándýr og geysilega tæknilegur, ákvað að slökkva tvisvar á sér í miðjum bollubakstri. Það er ekki beint mælt með slíku þegar maður bakar vatnsbollur. Og svo ákvað Logi að opna ofninn á þriðju plötunni til að athuga hvort þær væru tilbúnar. Jájá.
En þær eru alveg ætar. Held ég. Og nú - ætli Blogger éti þetta líka?
sunnudagur, febrúar 11, 2007
laugardagur, febrúar 10, 2007
Jæja...
...ég er mætt aftur. Reyndar finnst mér það smá hallærislegt, eins og mörgum gömlum bloggurum, sem þykir blogghrinan sem nú gengur yfir aðeins á eftir. Ég man líka eftir að hafa átt samræður við suma bloggara fyrir nokkrum árum, sem skildu ekkert í því af hverju maður var að þessari vitleysu, en fara nú hamförum á netinu ;o)
Samt sem áður, nú skal reynt við þetta form aftur. Sennilega má hér í framtíðinni finna tuð af ýmsu tagi, enda hefur eiginmaðurinn mælst til þess að ég fari að blogga aftur. Sennilega vonast hann til að nöldur mitt yfir vitlausum auglýsingum, asnalegum fyrirsögnum, fólki sem kann ekki að beygja töluorð og fleira endi þá frekar hér en í eyrunum á honum.